Aðalfundi í DV ehf., sem fram átti að fara í dag, hefur verið frestað um viku. Ástæða þessa er ágreiningur um ársreikning, að sögn Reynis Traustasonar, ritstjóra DV.
„Þetta er nakin ritskoðunarþörf,“ segir Reynir Traustason. „Þarna er verið að beita blygðunarlaust peningavaldi til að koma mönnum út. Það er eitthvað sem ég held að enginn vilji eða ætli að þola. Ég er alveg pollrólegur og bara mæti í vinnuna á mánudaginn,“ segir Reynir.
Hann segir þróun á fjölmiðlamarkaði „hörmulega.“
Sigurður G. Guðjónsson segir að fundinum hafi verið frestað vegna þess að stjórn félagsins gat ekki lagt fram samþykktan ársreikning, heldur ársreikning sem stjórni ætluði að skrifa undir, og gerði, á aðalfundinum. Krafa er um að samþykktur ársreikningur liggi frammi viku fyrir aðalfund, hluthöfum til sýnis.
„Svo gerðist það í morgun að ritstjórinn (Reynir) hafði keypt fjórar milljónir hlutabréfa í félaginu, og látið taka þau af hluthafa sem er í andstæðum hópi. Hann getur ekki gert það, enda úrskurðaði fundarstjórinn að þau hlutabréf sem Reynir hafði sölsað undir sig færu ekki með neinn atkvæðarétt á aðalfundi,“ segir Sigurður.
„Ennþá merkilegra var nú það að Reynir Traustason stjórnarmaður notaði sér stjórnarfund í félaginu í morgun, af því að það er 5% hámark á atkvæðavægi í félaginu, en hann átti 9,66% hlut, til þess að geta nýtt sér alla hlutina, þá dreifði hann þessum umframhlut á vini sína og fjölskyldu.“