Reynir Traustason segist bjartsýnn um að vera áfram ritstjóri DV í lok dags. Þetta sagði hann í samtali við mbl.is rétt áður en aðalfundur DV hófst klukkan 15. Á fundinum sitja stjórn og hluthafar félagsins DV ehf. Fundarstjóri er Gunnar Jónsson. Meðal annars verður kosið í nýja stjórn félagsins á fundinum, en með nýrri stjórn er hægt að ráða nýjan ritstjóra blaðsins.
Mikil átök hafa verið um eignaraðild að fjölmiðlinum að undanförnu og leiddu meðal annars til þess að Þorsteinn Guðnason var settur af sem stjórnarformaður. Þá kom Björn Leifsson, eigandi World Class inn sem nýr hluthafi félagsins, til þess eins að bola Reyni út.
Reynir og aðrir starfsmenn DV hafa sakað Þorstein Guðnason um að standa fyrir fjandsamlegri yfirtöku á félaginu DV ehf., sem annast rekstur fjölmiðilsins. Hluthafar og stjórn félagsins munu kjósa um ritstjóra, en Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs, hefur þegar afþakkað boð um ritstjórastöðuna.
Sjá frétt mbl.is: „Annarra að velja stríð eða frið“
Sjá frétt mbl.is: Slagurinn um eignarhald DV