Búið er að lýsa 100 sjómílna hættusvæði umhverfis eldstöðina í Holuhrauni sem að blindflugsheimildir eru ekki veittar um. Það þýðir að flugvélar í venjulegu áætlunarflugi verða að sveigja frá svæðinu, segir Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia. Akureyrarflugvöllur er innan hættusvæðisins.
Ekki er mikil flugumferð um svæðið á nóttunni. Hvaða áhrif gosið mun hafa á flug næstu klukkustundir og daga ræðst af því hvort að mikil aska mun fylgja gosinu sem nú er hafið í Holuhrauni.
Enn er því óljóst hvort að gosið mun verða til þess að flugi um Keflavíkurflugvöll mun seinka.
„Það er verið að meta aðstæður,“ segir Friðþór í samtali við mbl.is.
„Við sjáum ekki fram á að þetta hafi áhrif á okkar flugáætlun í fyrramálið,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hann biður farþega að fylgjast vel með fréttum en eins og staðan er núna sé allt útlit fyrir að allt flug verði á áætlun.
Uppfært kl. 02.22:
Í frétt frá Isavia segir að lítið eldgos sé hafið í Holuhrauni norðan Vatnajökuls. Um er að ræða hraungos og óljóst er hversu mikil aska fylgir gosinu. Viðbragðsáætlun vegna áhrifa öskudreifingar á flug hefur verið virkjuð og Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík hefur skilgreint hættusvæði í samræmi við upplýsingar frá Veðurstofu íslands umhverfis eldstöðina sem flugvélar í blindflugi verða að sneyða hjá í öryggisskyni.
Hættusvæðið afmarkast af geira í norðvesturátt frá Brúarjökli norður á Axarfjörð í austri og Arnarvatnsheiði í vestri. Akureyrarflugvöllur fellur innan svæðisins og er einungis hægt að fljúga þangað í sjónflugi ef aðstæður leyfa. Engar flugvélar voru á svæðinu þegar eldgossins varð var í nótt.