Kjaftfor amma fræg fyrir hetjudáð

Ágústa Eva er óhrædd við að vera hún sjálf.
Ágústa Eva er óhrædd við að vera hún sjálf. Eggert Jóhannesson

Ágústa Eva Erlendsdóttir lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og er einstaklega frjálslegur og uppátækjasamur karakter. Það lá því vel við að hún myndi túlka Línu langsokk í uppsetningu Borgarleikhússins á nýju leikári. Ágústa Eva segir þær stöllur ansi líkar en viðurkennir að hafa ekki þekkt mikið til hennar á yngri árum. „Ég fór lítið í leikhús og las ekki mikið af bókum heldur var ég meira að leika mér og sulla í drullupollunum,“ segir Ágústa Eva. „Þegar ég fór að lesa meira um hana fyrir hlutverkið kom það mér á óvart hvað hún minnir mig mikið á sjálfa mig.“

Hún segir Línu vera fyrirmynd fyrir alla enda er hún óhrædd við að vera hún sjálf og talar tæpitungulaust. „Lína finnur hvert tækifæri til að gera lífið skemmtilegra fyrir sig og aðra. Hún reynir að breyta öllum neikvæðum og leiðinlegum aðstæðum í skemmtilegar og jákvæðar aðstæður. Hún lifir ekki aðeins fyrir sjálfa sig heldur fyrir aðra. Sönn hamingja felst meðal annars í því að lifa fyrir aðra.“ Sjálf segir Ágústa Eva að bróðir hennar, Finnbogi Þór, sé hennar helsta fyrirmynd en hann er aðeins einu ári yngri en hún og ólust þau upp eins og tvíburar.

Hún á þó fleiri fyrirmyndir í fjölskyldunni. „Amma mín var í Kvennalistanum á sínum tíma, Laufey Jakobsdóttir. Hún kom fram í sjónvarpinu og sagði allt sem henni datt í hug. Hún var kjaftfor og mikið hörkutól.“ Laufey var fræg baráttukona, gjarnan kölluð bjarvætturinn Laufey eða amman í Grjótaþorpinu. „Hún var ofboðslega góð kona. Þegar vandinn með Hallærisplanið var hérna á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum voru unglingar þar á fylleríi og margir drápust áfengisdauða eða voru beittir ofbeldi. Þetta var í kringum 1980 og hún bjó í Grjótaþorpinu í Reykjavík. Amma fór þangað á nóttunni, sótti unglinga sem lágu eins og hráviði um göturnar og tók með sér heim. Hún leyfði þeim að sofa úr sér og gaf þeim súpu. Hún var kölluð amman í Grjótaþorpinu. Ég hugsa að amma hafi þarna verið að stíga út úr norminu.“

Ítarlegt viðtal við Ágústu Evu má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins sem kemur út um helgina.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins sem kemur út um helgina. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert