Í meðfylgjandi myndskeiði úr vefmyndavél Mílu má sjá upphaf eldgossins í nótt, en þar er um klukkustundarlangri upptöku hraðað í um eina mínútu.
„Um síðustu helgi, þegar Bárðarbunga 2 fór í loftið, þá jukust heimsóknir margfalt og nú þegar gosið er hafið hefur sú tala nánast tvöfaldast,“ segir Sigurrós Jónsdóttir hjá Mílu, en fjölmargir hafa fylgst með vefmyndavélum fyrirtækisins við Bárðarbungu undanfarnar klukkustundir.
Sigurrós segir heimsóknir í dag vera komnar upp í um 272.000 í heildina og eru að jafnaði um 4000 á síðunni hverju sinni. Þegar mest lét í nótt segir hún um 17.000 manns hafa verið á síðunni samtímis.
„Engir hnökrar hafa orðið á útsendingu. Hugsanlega hafa einstaka notendur átt í erfiðleikum með að ná sambandi, en vélarnar hafa haldist uppi,“ segir Sigurrós.
Hér má skoða vefmyndavélar Mílu