Gýs á ný í Holuhrauni

Lítið gos er hafið að nýju í sprungunni í Holuhrauni, þar sem gaus aðfaranótt föstudags. Gosið er heldur stærra en það fyrra en nánast enginn gosórói kemur fram á mælum.

Vísindamenn eru á staðnum og meta að sprungan hafi náð heldur lengra til norðurs. Veðurstofan hefur sett viðbúnað vegna flugs á rautt en hættustig almannavarna er enn í gildi og ekki hefur þótt ástæða til að breyta því enn sem er komið.

Gosið hófst um kl. 5:15 í morgun og virðist það vera í sömu sprungu og gaus sl. föstudag. Það gos var mjög lítið og stóð aðeins í um fjóra klukkutíma.

Sprungan nær 500 metrum lengra til norðurs

„Gosið er á sömu sprungu og síðast, en vísindamenn á staðnum telja að það nái um 500 metrum lengra til norðurs. Það sést ekki mikið til gossins út af moldrokinu sem er á svæðinu.

Vísindamennirnir telja að þetta sé svipað gos og síðast, kannski heldur minni virkni, en sprungan er heldur lengri. Það er að versna veðrið á svæðinu og ekki víst að vísindamennirnir geti fylgst vel með þessu,“ sagði Víðir Reynisson hjá samhæfingarmiðstöð almannavarna.

Ráðgert var að flugvél Landhelgisgæslunnar myndi fljúga yfir Bárðarbungu og Holuhraun í dag. Víðir sagði óljóst hvort reynt yrði að fljúga því veður væri að versna á svæðinu.

Skjálftavirkni í nótt hefur verið svipuð og síðustu daga. Stærsti skjálftinn í nótt var 3,6, en hann átti upptök sín 6,2 km austnorðaustur af Bárðarbungu.

Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, birti þetta myndskeið af gosinu á facebooksíðu sinni í morgun, en hann fylgdist með gosinu í morgun.

Ekki sést mikið til gossins í vefmyndavél Mílu, en vont veður er á staðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert