Hraunið er nokkurra metra þykkt

Strókarnir eru talsvert háir.
Strókarnir eru talsvert háir. Ljósmynd/Ármann Höskuldsson

Hraunstraumurinn frá gosinu í Holuhrauni var u.þ.b. 1 km breiður og um 3 km langur til norðausturs um kl. 07:30. Hraunið er talið nokkurra metra þykkt og flæðið var að líkindum um 1000 m3 á sek.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sagði í samtali við RÚV í hádeginu að hraunstreymið í þessu eldgosi væri heldur meira en í Eyjafjallajökulsgosinu.

Fund vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Honum lauk skömmu fyrir hádegi.

Hraungos hófst í Holuhrauni líklega upp úr kl. 04 í nótt, á sama stað og gaus fyrir tveimur dögum. Sprungan virðist vera u.þ.b. 1,5 km löng. Tekið var eftir því á vefmyndavél Mílu um 05:51. Færri skjálftar fylgja gosinu en því fyrra, en meira hraun kemur upp.

Skjálftavirkni hefur verið lítil á gossvæðinu. Um 500 skjálftar hafa mælst á svæðinu, sá stærsti 3,8 í Bárðarbunguöskjunni. Óveður á svæðinu gerir það að verkum að minni skjálftar greinast verr.

GPS-mælingar sýna áframhaldandi gliðnun á svæðinu norðan Dyngjujökuls. Gasbólstrar rísa frá sprungunni í nokkur hundruð metra hæð.

Veðurskilyrði gera erfitt að fylgjast með gosinu en vísindamenn eru á staðnum og nota hvert tækifæri til þess að afla upplýsinga um kviku- og gasútstreymi.

Athugað verður hvort hægt er að fljúga yfir gosstöðvarnar síðar í dag en veður hamlar flugi í augnablikinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert