Ármann Höskuldsson jarðvísindamaður tók myndir af eldgosinu í Holuhrauni í morgun, en þá var talsverður kraftur í gosinu. Myndirnar birti hann á facebooksíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Ármann er í hópi vísindamanna sem staddir eru á svæðinu. Þeir hafa staðfest að gosið sé samfellt og frekar hljóðlátt. Þeir horfðu á gosið í um tvo klukkutíma, en óku síðan til baka enda fór veður versnandi. Mikið sandrok fylgir veðrinu og sést nánast ekkert til gossins á vefmyndavél Mílu.