Bíddu, víst er gos!

Ellefu klukkustunda rúntur sem seint gleymist var farinn í morgunsárið. Um miðja nótt hringdi síminn. Nú skyldi farið að skoða gosstöðvar.

Ferðalag Morgunblaðsins í morgun hófst í raun klukkan hálfellefu í gærkvöldi. Þá var síðustu frétt sunnudagsins skilað og ákveðið að rúlla upp í Möðrudal. Þar gistum við Eggert Jóhannesson ljósmyndari í bílnum undir bjarma gossins í Holuhrauni.

Ákveðið var að vera samferða RÚV að gosstöðvum enda þarf að þvera ár og við skulum bara vera hreinskilin: það er betra að vera í samfloti í kringum eldgos. Svo var líka Gísli Einarsson með – ekki er hann neitt sérstaklega leiðinlegur. Henry Hálfdánarson tækniséní og Tómas Gunnarsson myndatökumaður komu líka.

Nú þurftu blaðamenn og ljósmyndarar enga sérstaka fylgd. Við þurftum hins vegar að skrifa undir hjá björgunarsveitinni að ferðin væri á okkar ábyrgð.

Skömmu eftir að ekið var framhjá Öskju kom sprungan í ljós og þvílíkt gos. Þetta var eitthvað svo klikk að standa þarna, finna hitann og hlusta á jörðina spúa eldi upp í loft.

Alls vorum við í þrjá klukkutíma að græja og gera. Eggert smellti af í gríð og erg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og RÚV tók upp efni og uppistand með Gísla Einarssyni, þeim mikla meistara. 

Orð fá ekki lýst hvernig er að standa nánast ofan í þessu gosi. Þegar jörðin öskraði skyndilega og rúmlega 200 metra sprunga myndaðist – nokkra metra frá okkur – þá fannst okkur kominn tími til að hypja okkur. Maður vill ekki styggja móður náttúru.

Frétt mbl.is: Bíddu, það er ekkert gos!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert