Jarðskjálfti upp á fimm stig varð klukkan 8:58 í morgun. Upptök hans eru við norðvesturbrún Bárðarbunguöskjunnar. Tilkynning barst frá Akureyri um að hann hefði fundist þar, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Sex skjálftar sem hafa verið yfir þrjú stig hafa mælst á Bárðarbungusvæðinu frá miðnætti.
Sigþrúður Ármannsdóttir, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að ekkert lát virðist vera á jarðskjálftahrinunni og stórir skjálftar eins og þessi komi nánast daglega í og við Bárðarbungu. Alls hafa mælst um 430 jarðskjálftar frá miðnætti á skjálftasvæðinu við Bárðarbungu og Dyngjujökul.
Hún segir að það sé stöðugur gangur í eldgosinu í Holuhrauni, norður af Dyngjujökli, og kvikugangurinn færist ekki norðar enda kemst kvikan upp. Engar tilkynningar hafa borist um ösku en íbúar á Akureyri og Skagafirði höfðu samband við Veðurstofuna í gær og töldu sig hafa orðið vara við ösku. Það hafi hins vegar ekki verið raunin heldur voru þetta laus efni af hálendinu sem fuku vegna leifanna af fellibylnum sem ollu usla víða á landinu í gær.