Kortið hér að ofan sýnir útbreiðslu nýja hraunsins við Holuhraun klukkan 14:00 í dag en það er byggt á mælingum úr SAR-ratsjá flugvélar Landhelgisgæslunnar TF-SIF. Kortið var birt á Facebook-síðu stofnunarinnar í kvöld.
„Hraunið nær 3,5 km til ANA frá miðju gossprungunnar. Breidd þess er mest um 1,6 km en mjókkar síðan eftir því sem lengra dregur frá gígunum. Endi hraunsins myndar um 500 m breiða tungu. Samfelld hrauná lá eftir miðju hrauninu langleiðina að jaðri. Víða var glóð í jöðrum hraunsins,“ segir á síðunni.
Þegar ratsjármyndin hafi verið tekin hafi flatarmál hraunsins verið um 4,5 km2. Gróflega áætlað hafi um klukkan 16:00 í dag, rúmum hálfum öðrum sólarhring frá upphafi gossins, verið komnir upp 20-30 milljónir rúmmetrar af hrauni.
„Miðað við stærð hraunsins í gærkvöldi hafa bæst við 5-10 millj. rúmmetrar á 18-19 tímum. Meðalrennsli hraunsins yfir þetta tímabil er því af stærðargráðunni 100 m3/s,“ segir ennfremur.