Mynd Bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, tekin frá gervitunglinu Auro með OMI-tæki, sýnir mikla útbreiðslu brennisteinstvíildis (SO2) yfir Norðausturlandi um hádegið í dag. Þá hafa vísindamenn veðurstofunnar mælt mjög hátt magn SO2 við gosstöðvarnar í Holuhrauni.
Bennisteintvíildi er litlaust en fólk finnur lykt af því og það getur valdið ertingu og hósta og hindrað öndun. Þess vegna eru vísindamenn okkar með gasmæla á sér þegar þeir eru við störf.
Magn SO2 við gosstöðvarnar í Holuhrauni er langt yfir hámörkum Vinnueftirlitsins. Því getur mikil hætta falist í því að nálgast svæðið og mikilvægt að þeir sem fara nærri gosstöðvunum séu með gasmæla og gasgrímur. Hefur 10 km radíus umhverfis gosstöðvarnar verið skilgreindur sem hættusvæði vegna þessarar vár.