Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka þjónustuskrifstofum sínum á Húsavík og í Vestmannaeyjum í sparnaðarskyni. Lokanirnar taka gildi 1. desember. Þá verður einnig sagt upp leigusamningi vegna húsnæðis á Sauðárkróki af sömu ástæðum.
Verkalýðsfélagið Framsýn mótmælir lokuninni á Húsavík harðlega í ályktun sem birt var á vefsíðu félagsins í dag en þar er þess krafist að lokunin verði dregin til baka. „Þá vekur furðu að stofnunin skyldi ekki sjá ástæðu til að eiga samráð við stéttarfélögin og sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum um málið áður en þessi vanhugsaða ákvörðun var tekin. “
Fram kemur að Framsýn ætli að funda með bæjarstjóra Norðurþings, Kristjáni Þór Magnússyni, á morgun en einnig verði óskað eftir fundi með Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra vegna málsins.