Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir Ísland ekki leggjast gegn því að sett verði á laggirnar sérstakar viðbragðshersveitir á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) til þess að bregðast við vegna stöðu mála í Austur-Evrópu gerist þess þörf.
Haft var eftir Gunnari Braga í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að Ísland hefði ekki lagst gegn þróun NATO til þessa eða breytingum á bandalaginu og það yrði ekki raunin að þessu sinni heldur. Stofnun viðbragðshersveitanna væri að hans mati eðlileg öryggisráðstöfun.
Leiðtogafundur NATO hefst á morgun í Wales og munu Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sitja hann fyrir Íslands hönd. Þar stendur meðal annars til að fá samþykki fyrir stofnun hersveitanna.