Fram kemur í stöðumati almannavarna vegna eldgossins í Holuhrauni að enn sé hætta á flóði á svæðinu og að hættumat byggi á því að enn geti gosið undir Vatnajökli. Hvort sem það yrði í Dyngjujökli eða í öskju Bárðarbungu.
Ennfremur segir að ekki sé hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verði. Fjórir möguleikar séu hins vegar taldir líklegastir en ekki sé hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
- Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
- Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
- Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
- Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.