Segir eignarhald DV illa skráð

Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson.
Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson. Þórður Arnar Þórðarson

„Það segir sig algjörlega sjálft að ég fer ekki til fjölmiðlanefndar vegna þess að ég haldi að ekkert misjafnt hafi verið í gangi,“ segir Atli Þór Fanndal, fv. blaðamaður DV, sem gekk á fund fjölmiðlanefndar í gær þar sem hann taldi sig búa yfir upplýsingum sem gætu varpað nýju ljósi á eignarhald DV. „Ég tel það skipta höfuðmáli að ritstjórinn hafi séð ástæðu til að fela, eða tilkynna ekki sérstaklega, hvaðan hann fékk peninga.“

Frægt er orðið að ritstjóri DV, Reynir Traustason, þáði 15 millj­ón króna lán­veit­ing­u frá fé­lagi í eigu Guðmund­ar Kristjáns­son­ar, for­stjóra Brims hf., og ræddi Atli Þór símleiðis við Elfu Ýr Gylfadóttur, fram­kvæmda­stjóra fjölmiðlanefnd­ar, vegna málsins og þess að hann taldi sig búa yfir upplýsingum sem gætu varpað nýju ljósi á eignarhald DV.

„Ég hringdi í Elfu og við áttum um það bil klukkutíma fund þar sem við fórum yfir grófar línur í málinu. Ég óskaði eftir því að nefndin myndi taka málið fyrir. Ég benti auk þess á það að í nefndinni sæti faðir Inga Freys Vilhjálmssonar, fréttastjóra á DV, og að það þætti mér ekki eðlilegt við úrvinnslu þessa máls. Ég get að öðru leyti ekki farið mikið út í það í smáatriðum hvað fór okkur Elfu á milli. Niðurstaðan er þó sú að í morgun fékk ég bréf þar sem ég var beðinn um að skila inn skriflegu erindi og segja þá nefndinni hvort það erindi væri opinbert eða afhent í trúnaði. Ég fór ekki til nefndarinnar til að leyna neinu svo að það verður að sjálfsögðu opinbert,“ segir Atli og bætir við að hann þurfi nokkra daga til að fara yfir stöðu mála áður en erindið verður birt. 

Treystir ekki eigendum DV

Eins og kom fram í athugasemd Atla á fésbókarsíðu Fjölmiðlanörda hefur hann ekki sérstaklega mikið álit á nefndinni og segir hana vera veika. „Ég treysti fjölmiðlanefnd ekkert sérstaklega. Mér þykir hún ekki hafa unnið vinnuna sína undanfarin ár. Ég leita eingöngu til nefndarinnar af því að ég lít á það sem borgaralega skyldu mína. Að öðru leyti er ekkert sérstakt traust falið í því að ég leiti til hennar,“ segir hann.

„Það veltur svolítið á því hversu þröngt falið viðskiptaboð er túlkað hvort nefndin geti beitt sér í málinu eða ekki. Ég tel það þó algjörlega ljóst að nefndin getur og ber skylda til að beita sér í því að haldið sé utan um eignarhald á fjölmiðlum. Eignarhald á fjölmiðlum er ekki rétt skráð á Íslandi og það á sérstaklega við um DV,“ segir hann. „Ég hef enga ástæðu til að treysta nýjum eigendum, sem komið hefur í ljós að eru í raun búnir að vera eigendur mjög lengi, né gömlu eigendunum.“

Dagblaðið DV
Dagblaðið DV Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert