Ungt fólk skrifar fyrir ungt fólk

Ása Bríet Brattaberg er ein þeirra sem skipar ritstjórn Þrívíddar, …
Ása Bríet Brattaberg er ein þeirra sem skipar ritstjórn Þrívíddar, nýs vefmiðils fyrir ungt fólk. Þrívídd

„Við vildum efla menningu fyrir ungt fólk sem vill koma sér á framfæri en okkur fannst það vanta í vefmiðla á Íslandi,“ segir Ása Bríet Brattaberg, ein þeirra fimm sem skipa ritstjórn Þrívíddar, nýs vefmiðls fyrir ungt fólk. Vefurinn var opnaður í gær og hefur hann þegar hlotið jákvæðar viðtökur meðal lesenda.

Miðillinn er sérstakur að því leiti að allt efni vefsins og vefurinn sjálfur er unnin af fólki á aldrinum 16 til 25 ára. Ása Bríet, Andri Marinó Karlsson, Sóley Sigurjónsdóttir, Stefán Ingvar Vigfússon og Þorsteinn Eyfjörð skipa ritstjórn Þrívíddar en þau njóta liðsinnis fjölda lausapenna, ljósmyndara og prófarkalesara.

Lögðu sjálf út fjármagn og vinna í sjálfboðavinnu

Ása Bríet segir að hópurinn hafi unnið lengi að hugmyndinni sem leit loksins dagsins ljós í gær. Hún segir ferlið hafa verið langt og mikil vinna liggi að baki síðu sem þessari. Ritstjórnin ráðfærði sig við marga og hélt meðal annars fundi þar sem fólk gat komið hugmyndum sínum á framfæri.

Ritstjórnin lagði sjálf út fjármagn svo Þrívídd gæti orðið að veruleika en þar að auki er síðan unnin í sjálfboðavinnu. Hópurinn stefnir að því að birta nýtt efni á síðunni á hverjum degi.

„Þegar hugmyndin af Þrívídd kom fannst okkur að það vantaði vettvang þar sem fjallað væri um hagsmuni ungs fólks í fjölmiðlum, og er miðillinn þess vegna hugsaður sem opinn vettvangur fyrir málefni og menningu ungmenna þar sem allir geta komist að,“ segir á vefsíðu Þrívíddar.

Þrívídd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert