Aukin virkni eftir stóran skjálfta

Hraunið sem streymir frá eldgosinu nálgast nú Jökulsá á Fjöllum.
Hraunið sem streymir frá eldgosinu nálgast nú Jökulsá á Fjöllum. Eggert Jóhannesson

Skjálftavirknin hefur aukist í kvikugöngunum og Herðubreiðartöglum eftir að stór jarðskjálfti, 5,5 stig, varð í Bárðarbunguöskjunni rúmlega þrjú í nótt. Ekkert hefur dregið úr virkninni í eldgosinu í Holuhrauni í nótt, að sögn Pálma Erlendssonar, sérfræðings á jarðvársviði Veðurstofu Íslands. Í gærkvöldi átti hraunstraumurinn einungis nokkra kílómetra eftir að Jökulsá á Fjöllum en ekki er vitað hvort hann hafi náð til árinnar á þessari stundu.

Skjálfti upp á 4,9 varð í Bárðarbunguöskjunni skömmu fyrir ellefu í gærkvöldi og annar upp á 3,8 stig á níunda tímanum í gærkvöldi.

Pálmi segir að virknin hafi verið stöðug í nótt en eftir skjálftann klukkan 03:09:54 en upptök hans voru eins og áður sagði í Bárðarbunguöskjunni líkt og allir stóru jarðskjálftarnir hafa átt upptök sín.

Í Herðubreiðartöglum hafa orðið nokkrir skjálftar sem eru í kringum þrjú stig en að sögn Pálma er ekki hægt að segja til um það að svo stöddu hvort einhverjar breytingar séu að verða á þessu svæði.

Þótt enginn treysti sér enn til að kalla eldgosið við Holuhraun ferðamannagos er áhugi útlendinga á gosinu mikill. Rúmlega ein og hálf milljón hefur heimsótt síðu Mílu, livefromiceland.is, og koma flestar heimsóknirnar frá Evrópu og Ameríku. Einungis 20 prósent heimsókna á síðuna eru frá íslenskum notendum eða um þrjú hundruð þúsund. Í tilkynningu frá Mílu segir að á föstudag, 29. ágúst, hafi heimsóknir verið hvað flestar eða rétt tæpar 422.000 á einum sólarhring, frá miðnætti til miðnættis.

Áhugi ferðamanna á Íslandi er líka mikill og hefur síminn ekki stoppað hjá Mýflugi að sögn Leifs Hallgrímssonar, framkvæmdastjóra Mýflugs í samtali við Morgunblaðið. „Við erum búnir að fljúga tíu ferðir í dag með erlenda ferðamenn að gosinu og síminn stoppar ekki hjá okkur, svo mikill er áhuginn á útsýnisflugi yfir gosið,“ segir Leifur en Mýflug hefur stundað útsýnisflug á þessu svæði í að verða þrjá áratugi.

Þyrluþjónustunni Helo hafa einnig borist fjölmargar fyrirspurnir og segir Herdís Anna Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri að ekki hafi verið flogið vegna veðurs en að sjálfsögðu bjóði þau upp á flug fyrir áhugasama um leið og aðstæður leyfa. „Við höfum flogið með tækjabúnað og vísindamenn á svæðið en ekki komist í dag með ferðamenn vegna veðurs.“

Vefmyndavél Mílu í Holuhrauni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert