Meiri kvika inn í ganginn en upp úr

Ratsjármyndir jarðvísindamanna sýna 0,5 - 1 km breiðan sigdal sem hefur myndast fyrir framan og undir Dyngjujökli. Greina má merki sigs tæpa 2 km inn undir jökul. Þykkt jökulsins dregur úr sýnilegum ummerkjum sigsins svo líklega nær sigið lengra undir jökulinn. Skjálftavirkni heldur áfram og hafa um 160 skjálftar mælst frá miðnætti.

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun, en alls kom eftirfarandi fram: 

  • Skjálftavirkni heldur áfram, um 160 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Flestir skjálftar mælast á nyrsta hluta Dyngjujökuls.  Kl. 3:08 mældist skjálfti að stærð 5,5 norðantil í Bárðarbunguöskjunni. 
  • GPS mælingar sýna að berggangurinn hefur stækkað frá því að gosið hófst, það bendir til að meiri kvika hafi farið inn í ganginn en upp úr honum í gosinu. 
  • GPS mælingar sýna að hægt hefur á jarðskorpuhreyfingum í kringum bergganginn sem hefur verið að  myndast frá því að atburðir hófust.
  • Ratsjármyndir sýna 0,5 - 1 km breiðan sigdal sem hefur myndast fyrir framan og undir Dyngjujökli. Greina má merki sigs tæpa 2 km inn undir jökul. Þykkt jökulsins dregur úr sýnilegum ummerkjum sigsins svo líklega nær sigið lengra undir jökulinn.
  • Í ljósi gagna frá GPS mælingum, ratsjármyndum og jarðarskjálftamælingum þá minnkar ekki hætta á að gos brjóti sér leið suður frá gossprungunni og upp undir Dyngjujökul. Þeirri atburðarás fylgir bráð flóðahætta á flæðum framan við Dyngjujökul.  Í ljósi þess verður farið yfir hættumat fyrir vísindamenn sem starfa á svæðinu.
  • Eldgosið heldur áfram í Holuhrauni, meginhrauntungan stefnir í ANA.
  • Kl. 8:00 í morgun var heildarflatarmál hraunsins áætlað 7,2 km2.
  • Engar tilkynningar um öskufall hafa borist. Öskuframleiðsla er lítil sem engin.
  • Brennisteinstvíildi mælist í kringum eldstöðina. Gosmökkur berst til norðausturs við gosstöðvarnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert