Sigmundur og Gunnar funda með NATO

Leiðtogarnir munu ræða málin í Celtic Manor Resort í Wales.
Leiðtogarnir munu ræða málin í Celtic Manor Resort í Wales. AFP

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra munu sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn verður í Wales 4.-5. september nk.

Leiðtogar bandalagsríkja munu meðal annars eiga fundi með forseta Úkraínu og þátttökuríkjum í alþjóðaliðinu í Afganistan, að því er fram kemur í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins.

Ennfremur munu leiðtogar bandalagsins funda í eigin ranni, meðal annars um öryggishorfur og varnarviðbúnað í Evrópu. Utanríkisráðherrar bandalagsríkja munu einnig funda í eigin röðum, sem og með umsóknarríkjunum fjórum um stækkunarmál. Þá funda utanríkisráðherrar með framkvæmdastjórum alþjóðastofnana um öryggismál í Evrópu og Atlantshafssvæðinu.

Varnarmálaráðherrar munu svo funda með sérstökum samstarfsríkjum bandalagsins.

Leiðtogafundurinn markar 65 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins í breyttu öryggisumhverfi í Evrópu þar sem hæst mun bera staða mála í Úkraínu. Jafnframt markar fundurinn tímamót í Afganistan, en aðgerðum alþjóðliðsins í Afganistan lýkur í árslok í núverandi mynd. Leiðtogafundurinn er ennfremur síðasti ráðherrafundur núverandi framkvæmdastjóra, Anders Fogh Rasmussen. Eftirmaður hans í starfi, Jens Stoltenberg, tekur við hinn 1. október nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert