Sveppaát getur endað með geðrofi

Nú er komin sú tíð að tínsla ofskynjunarsveppa færist í aukana. Sveppaætur reyna að ná sveppnum áður en fyrsta næturfrost ber að garði en Valgerður Rúnarsdóttir, læknir hjá SÁÁ, segir neysluna þó ekki vera algenga.

„Það ber þó alltaf á því á hverju hausti að einhverjir virðast hafa áhuga á því að nota þetta með annarri neyslu. Hún er yfirleitt hjá þeim sem eru á annað borð í vímuefnaneyslu. Þetta er ekki einangrað fyrirbrigði, í það minnsta ekki eins og það ber fyrir okkur hérna á Vogi,“ segir Valgerður. Hún segist jafnframt ekki hafa orðið vör við aukningu á neyslu sveppanna.

„Þetta slæðist bara með eins og er með önnur ofskynjunarefni. Þetta kemur þó inn öðru hvoru í sveiflum og þá eru kannski margir sem prófa þetta. Þetta eru smitáhrif og þá helst hjá ungu fólki. Smitáhrifin eru náttúrlega mikil í neyslu allra vímuefna,“ segir Valgerður. Neytendur þurrka gjarnan sveppina að hennar sögn og drýgja þá yfir veturinn en áhrif þeirra geta verið mjög alvarleg.

„Afleiðing neyslu þessara sveppa eru ofskynjunaráhrif. Það getur auðvitað verið hættulegt út af fyrir sig að fara inn í slíkt ástand og getur það endað í geðrofi. Fólk missir raunveruleikatengsl og sér til að mynda hluti sem eru ekki til staðar. Það getur auðvitað haft slæmar afleiðingar að vera undir áhrifum slíkra efna. Víman sjálf líkist alvarlegum geðrænum einkennum. Það er býsna alvarlegt,“ segir hún að lokum.

Ekki vitað hverjir þola sveppaát

Á vef SÁÁ má finna grein um ofskynjunarsveppi. Í henni segir að sveppirnir sem hér eru tíndir séu litlir hattsveppir sem finnist einkum á umferðareyjum og túnblettum víða á höfuðborgarsvæðinu. Neysla þessara sveppa sé talsvert algeng hér á landi en árstíðabundin.

Aðalhættan við að nota sveppi er sú að við neysluna getur neytandinn orðið geðveikur um tíma eða hrundið af stað alvarlegri geðveiki. [...] Erfitt er að segja fyrir um hverjir þola slíkt sveppaát en hægt að fullyrða að 15-20% okkar megum alls ekki nota þessa sveppi. Þeir sem eru í sérstakri hættu eru þeir sem eru geðveilir eða geðveikir eða í ætt þeirra er geðveiki. Aðrar aukaverkanir sem geta komið fram við sveppanotkun eru ógleði, uppköst, óþægindi í kvið, höfuðverkur, hár blóðþrýstingur og þanin ljósop og höfgi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert