„Ég vil bara fá peninginn“

Benedikt Erlingsson.
Benedikt Erlingsson. mbl.is/Golli

„Ég þarf ekki fleiri verðlaun, ég vil bara fá fleiri áhorfendur,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Hross í oss, en hún hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Myndin etur kappi við fjór­ar aðrar mynd­ir, frá Finn­landi, Dan­mörku, Nor­egi og Svíþjóð.

Hross í Oss hef­ur fengið fjöl­mörg verðlaun frá því hún var tek­in til sýn­inga og hafa er­lend­ir gagn­rýn­end­ur ekki sparað lofið. „Myndin hefur fengið nóg af verðlaunum og það er svosem ekkert á það bætandi,“ segir Benedikt hógvær í fasi. „Þetta gæti þó orðið ánægjulegt því af þessu tilefni verður hún sýnd aftur í bíóhúsum hjá Senu og þá gefst fólki tækifæri á að sjá hana aftur.“ Hann segir tilnefninguna jafnframt koma sér vel þar sem myndin kemur út á DVD í lok september.

Mynd­irn­ar sem einnig eru til­nefnd­ar til Kvik­mynda­verðlauna Norður­landaráðs eru Bet­on­iyö frá Finn­landi, danska mynd­in Nymp­hom­aniac, norska mynd­in Blind og að lok­um Turist frá Svíþjóð.

Danska myndin Nymp­hom­aniac, sem er eftir Lars von Trier, hefur verið umdeild en í henni er fjallað um kynlífsfíkn. „Við getum velt því fyrir okkur hvort íslenskt dýraklám á eitthvað í danskt porno. Við sjáum bara til hvað kveikir í þeim,“ segir Benedikt.

Verðlaun­in verða af­hent á Norður­landaráðsþingi í Stokk­hólmi 29. októ­ber næstkomandi og hlýt­ur sigurvegarinn að laun­um 350.000 dansk­ar krón­ur, eða um 7,5 millj­ón­ir ís­lenskra króna. „Ég vil bara fá peninginn,“ segir Benedikt léttur í lund að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert