„Ég þarf ekki fleiri verðlaun, ég vil bara fá fleiri áhorfendur,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Hross í oss, en hún hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Myndin etur kappi við fjórar aðrar myndir, frá Finnlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Hross í Oss hefur fengið fjölmörg verðlaun frá því hún var tekin til sýninga og hafa erlendir gagnrýnendur ekki sparað lofið. „Myndin hefur fengið nóg af verðlaunum og það er svosem ekkert á það bætandi,“ segir Benedikt hógvær í fasi. „Þetta gæti þó orðið ánægjulegt því af þessu tilefni verður hún sýnd aftur í bíóhúsum hjá Senu og þá gefst fólki tækifæri á að sjá hana aftur.“ Hann segir tilnefninguna jafnframt koma sér vel þar sem myndin kemur út á DVD í lok september.
Myndirnar sem einnig eru tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs eru Betoniyö frá Finnlandi, danska myndin Nymphomaniac, norska myndin Blind og að lokum Turist frá Svíþjóð.
Danska myndin Nymphomaniac, sem er eftir Lars von Trier, hefur verið umdeild en í henni er fjallað um kynlífsfíkn. „Við getum velt því fyrir okkur hvort íslenskt dýraklám á eitthvað í danskt porno. Við sjáum bara til hvað kveikir í þeim,“ segir Benedikt.
Verðlaunin verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 29. október næstkomandi og hlýtur sigurvegarinn að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7,5 milljónir íslenskra króna. „Ég vil bara fá peninginn,“ segir Benedikt léttur í lund að lokum.