Færri skjálftar og óróanum lokið

Gos í Holuhrauni
Gos í Holuhrauni mbl.is/Árni Sæberg

Færri jarðskjálftar hafa mælst í og við norðanverðan Vatnajökul í nótt en undanfarið. Eldgosið í Holuhrauni er enn í gangi en í gær var lokað fyrir alla umferð inn á svæðið vegna aukins óróa á gosstöðvunum. Þeim óróa lauk seint í gærkvöldi, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Að sögn Pálma Erlendssonar, sérfræðings á jarðvársviði Veðurstofu Íslands, var stærsti skjálftinn í nótt 4,8 stig og átti hann upptök sín í Bárðarbunguöskjunni líkt og allir aðrir stórir skjálftar sem mælst hafa á svæðinu síðan jarðskjálftahrinan hófst hinn 16. ágúst sl.

Í nótt hafa orðið nokkrir örsmáir skjálftar fyrir norðan Herðubreið en ekki hefur orðið vart við skjálfta þar fyrr en nú. Að sögn Pálma er of snemmt að segja til um hvað þetta þýðir þar sem skjálftarnir voru bæði fáir og litlir.

Smáskjálftar hafa verið víða á svæðinu fyrir norðan. Meðal annars í Bárðarbungu, í ganginum og þá bæði norðarlega í honum og undir jaðrinum á Dyngjujökli, við Öskju og í Herðubreiðartöglum.

Óróinn sem hófst síðustu nótt í kjölfar skjálfta upp á 5,5 stig í Bárðarbunguöskjunni mældist í allan gærdag og fram á kvöld en um hálftíuleytið í gærkvöldi sofnaði hann, að sögn Pálma.

Vegna óróans ákvað lögreglustjórinn á Húsavík að loka fyrir alla frekari umferð inn á svæðið norðan Vatnajökuls. Á meðan þessi óvissa varir var ekki talið rétt að hleypa fleirum inn á svæðið. Jafnframt hefur verið sett upp innri lokun á vegi 910 við Vaðöldu. 

„Órói sem sást á mælum í gær dó út um 21:30 í gær og sást ekki aftur um nóttina. Stærsti skjálfti næturinnar mældist um 3:45, 4,8 að stærð. Hann varð nyrst í Bárðarbunguöskju.

Smáskjálftar mældust á svipuðum slóðum og áður, í Bárðarbungu, í ganginum bæði nyrst og undir Dyngjujökulsporðinum, austan Öskju og Herðubreiðartagla. Helsta nýnæmið var að fáeinum smáskjálftum er mældust 6-7 km norður af Herðubreið.

Rúmlega 80 skjálftar hafa verið sjálfvirkt staðsettir í nótt.

Ekki sést til gosstöðva á myndavélum sem stendur en virkni þar var svipuð síðast er sást til gosstöðvanna,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Jarðvísindastofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert