Gosið er í fullu fjöri - nýtt myndband

Gos í Holuhrauni
Gos í Holuhrauni Árni Sæberg

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að eldgosið í Holuhrauni sé í fullu fjöri og að gosvirknin hafi heldur aukist en hitt. Vísindamenn eru nú að störfum á gossvæðinu en þeir þurftu að yfirgefa það í gær vegna aukins gosóróa.

Hann segir að gosið sé sprellfjörugt og sjaldan verið jafnmikið og nú í morgun. Það megi rekja til óróans sem hófst í fyrrinótt í kjölfar jarðskjálfta upp á 5,5 í Bárðarbunguöskjunni. „Það er heldur að draga úr núna og það er að slokkna á nokkrum gígum. Sprungan er hins vegar ekkert að gefa eftir,“ sagði Ármann þegar mbl.is náði tali af honum í morgun. Grenjandi rigning er á þessum slóðum og ekkert hægt að fylgjast með gosinu í vefmyndavélum. Rigningin veldur því að mikil gufumökkur stígur af hraunbreiðunni.

Hraunið stækkar bara og stækkar að sögn Ármanns en það stækkaði um 1,1 km í nótt og er nú komið í átta km fjarlægð frá gosstöðvunum. Það er komið 250 metra til vesturs og er að stækka í þá átt, segir Ármann. Hann segir að það styttist í að hraunið renni í Jökulsá á Fjöllum en það rennur hratt í þá átt. 

Jarðskjálftavirknin hefur verið minni í nótt og morgun í og við norðanverðan Vatnajökul. Tveir stórir skjálftar hafa mælst í Bárðarbunguöskjunni það sem af er degi, annar upp á 4,8 stig klukkan 3:45 og hinn mældist 4,3 stig en hann reið yfir klukkan 6:18 í morgun.

Í gær var ákveðið að rýma svæðið næst gosstöðvunum og setja upp innri lokun þar við. Þetta var gert vegna mikils óróa, sem kom fram á mælum og ekki var hægt að staðsetja eða útskýra með vissu. Óróinn gekk niður í gærkvöldi og hefur ekki orðið vart aftur í sama mæli og í gær.
 
Lögreglustjórinn á Húsavík hefur, í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ákveðið að aflétta innri lokun og munu vísindamenn og fjölmiðlar á svæðinu geta farið aftur að gosstöðvunum. Þetta er gert með þeim fyrirvara að það gæti komið til þess að rýma aftur ef aðstæður breytast. Sem fyrr á þessi aðgangsheimild einungis við um vísindamenn og fjölmiðlafólk.

Myndataka Kristinn Ingi Pétursson

Jarðvísindastofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert