Kylfur duga ekki gegn byssum

Sérsveitarmenn.
Sérsveitarmenn. Rósa Braga

Almennir lögreglumenn búa aðeins yfir lítilli kylfu og piparúða þegar kemur að átökum en Guðmundur Ingi Rúnarsson, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, segir nauðsynlegt að vinna að auknu öryggi lögreglumanna. Borið hefur á að almennir lögreglumenn þurfi að beita sér í málum þar sem þungvopnaðir misgjörðamenn eiga í hlut.

„Almennt séð er verklagi þannig háttað að þegar vopn er í umferð, hvort sem um hníf eða skotvopn er að ræða, þá fer almenn lögregla á vettvang og tryggir ytri lokun, hvort sem um bíl eða heimahús er að ræða. Svo er beðið eftir sérsveitinni til að ganga í málið. Stundum þurfa almennir lögreglumenn þó að bregðast við aðstæðum. Starfið snýst náttúrlega mikið út á að þurfa að leika eftir eyranu,“ segir Guðmundur og bætir því við að það sé ekki alltaf hlaupið að því að fá aðstoð sérsveitarinnar.

„Sérsveitin er stoðdeild fyrir suðvesturhornið. Það getur verið mikið í gangi í Keflavík eða á Selfossi, jafnvel bara almenn slagsmál hérna í Reykjavík, og þá getur verið bras að fá sérsveitina til að mæta fljótt á vettvang. Sérsveitin sinnir miklu fleiri málum en bara vopnamálum,“ segir hann.

Þörf á rafstuðbyssu

Guðmundur telur það nauðsynlegt að tækjabúnaður almennra lögreglumanna verði bættur og nefnir rafstuðbyssu í því samhengi.

„Þetta er náttúrlega mjög stór flöskuháls. Það er alltaf notað að það sé svo dýrt að kaupa tækjabúnað og þjálfa upp mannskapinn. Svo er það mjög stórt skref fyrir lögreglu, sem hefur hingað til kallað sig vopnlausa, að fara að ganga með svona tæki. Það hefur ýmislegt verið rætt í þessu samhengi, meðal annars að þjálfa lögreglumenn í umgengni og beitingu skotvopna. Ég myndi þó frekar vilja að næsta skref yrði tilkoma rafstuðbyssu. Fyrst og fremst verður þó að vinna í þessum öryggismálum okkar, til að mynda að við höfum greitt aðgengi að sérsveitinni þegar þessi mál koma upp,“ segir hann. Guðmundur segir kylfuna ekki alltaf nýtast lögreglumönnum og oft eigi þeir erfitt með að verja sig.

„Rafstuðbyssa væri því bara framlenging á okkar öryggisbúnaði. Oft þegar maður er að glíma við einhvern sem er kannski andlega veikur eða á fíkniefnum þá virðist piparúðinn bara virka sem olía á eldinn. Reynslan er sú að rafstuðbyssan virkar alltaf eins og búast má við. Það er oftast hægt að gera það úr nokkurra metra fjarlæg en sannarlega dugir hún skammt gegn aðila sem vopnaður er skotvopni,“ segir hann.

Skotvopn komin í umferð á Íslandi

Guðmundur segist að sjálfsögðu hafa áhyggjur af því að tilkoma skotvopna í fórum lögreglumanna, ef að því kemur, leiði af sér aukna skotvopnanotkun glæpamanna en að raunin sé sú að slík vopn séu löngu komin í umferð hér á landi. 

„Við þurfum ekki að leita langt til að sjá að byssur eru nú þegar komnar í umferð hjá mörgum af þessum „viðskiptavinum“, ef svo má að orði komast, lögreglunnar,“ segir hann. 

„Við getum alltaf miðað okkur við Norðurlöndin og þar hefur Ísland alltaf verið fimm til tíu árum á eftir. Fyrir tíu árum var norska lögreglan til dæmis óvopnuð, hún varð svo vopnuð á einu kvöldi. Danska lögreglan er einnig vopnuð,“ bætir hann við. 

„Vopnvæðing lögreglumanna snýst að mestu leyti um öryggi þeirra. Það er ekki inni í myndinni að fara að beita þyngri vopnum sem valdbeitingartæki. Þetta snýst um aðgengi lögreglumanna að vopni til að beita í neyðarvörn. Byssan, ef til hennar kemur, væri einungis síðasta úrræði fyrir almennan lögreglumann til að verja sig,“ segir Guðmundur að lokum. 

Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert