Borgarstjórinn í Osló, Fabian Stang, hefur sent Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í Reykjavík bréf þar sem hann lýsir því yfir að Oslóarborg muni áfram færa Reykjavíkurborg jólatré að gjöf. Í bréfinu er einnig upplýst að skipafélagið sem hefur flutt tréð á milli landanna borgunum að kostnaðarlausu muni gera það áfram.
Nokkur umræða varð um Oslóartréð í vetur sem leið en borgarstjórn Oslóar tók þá ákvörðun um að hætta við að gefa Reykjavíkurborg tréð.
Ákvörðunin vakti mikla athygli í Noregi og á Íslandi og fjölluðu norskir miðlar talsvert um málið. Ákvörðun Oslóarborgar hefur því verið dregin til baka og norskt tré mun áfram prýða Austurvöll á aðventunni borgarbúum til mikillar gleði en mikill mannfjöldi hefur jafnan verið viðstaddur þegar ljós Oslóartrésins eru tendruð.
Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að borgin hafi ávallt haldið upp á þennan dag og hafa norsk-íslensk börn aðstoðað borgarstjóra við að kveikja ljósin á trénu. Þá hafa fulltrúar Oslóarborgar eða sendiherra Noregs á Íslandi haldið ávörp við athöfnina til að heiðra samvinnu og vináttu Oslóar og Noregs við Reykjavík og Íslendinga.
Eimskip hefur jafnan flutt tréð frá Noregi til Íslands og ekki tekið fyrir það gjald.