Vill þjóðaratkvæði um NATO

Ögmundur Jónasson alþingismaður.
Ögmundur Jónasson alþingismaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Tillagan gengur út á það að Alþingi samþykki að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Íslands í NATO. Það er sýnt að þingflokkur VG standi að baki tillögunni þó ég verði fyrsti flutningsmaður.“

Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi innanríkisráðherra, í samtali við mbl.is en hann hyggst leggja fram þingsályktunartillögu þegar Alþingi kemur saman síðar í þessum mánuði um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

„Mín skoðun er sú mjög eindregið að NATO sé okkur varasamur félagsskapur í margvíslegu tilliti. Ég tel að smáþjóð eins og Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalagi. Ísland á að vera málsvari friðar og réttlætis en ekki hernaðarhagsmuna stórvelda sem að NATO fyrst og fremst þjónar,“ segir hann.

Íslandi betur borgið utan NATO

Ögmundur bendir á að heimurinn hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum og því sé eðlilegt að Íslendingar endurmeti afstöðu sína til NATO. Hann bendir meðal annars á að aðildina að bandalaginu kosti fjármuni og núverandi ríkisstjórn hafi lýst sig reiðubúna að auka fjárframlög Íslands til þess. Hann furðar sig á þeirri afstöðu.

„Stóra málið í mínum huga eru þó ekki hin fjárhagslegu rök, alls ekki, heldur hin pólitísku og félagslegu rök,“ segir Ögmundur og vísar einkum til þeirra áherslubreytinga sem gerðar hafi verið á NATO á undanförnum 20 árum þar sem bandalagið leggi ekki lengur áherslu á að bregðast aðeins við beinum árásum á ríki þess heldur einnig ógnir við þau.

„Þá þurfum við að spyrja hverjum er helst líklegt að verði ógnað? Það eru helst þeir sem eru með fingurna út um heiminn í auðlindum og hagsmunum. Viljum við alltaf samspyrða okkur slíku brölti. Ég held ekki. Þannig að öryggi okkar er ekki betur borgið í NATO en utan. Þvert á móti þá held ég að öryggishagsmunum okkar væri betur borgið utan þess.“

Strandaði á síðasta kjörtímabili

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem viðraðar eru hugmyndir um slíka þingáslyktunartillögu en gerðist einnig á síðasta kjörtímabili þegar VG og Samfylkingin voru í ríkisstjórn. Þá ræddi Ögmundur að sama skapi um slíka tillögu og fram kom í fréttum að þingflokkur VG styddi úrsögn úr NATO auk þess sem ungliðar VG hvöttu til hennar.

Spurður hvers vegna slík þingsályktunartillaga hafi ekki náð fram að ganga á síðasta kjörtímabili þegar VG hafði mun meiri þingstyrk en raunin er í dag segir Ögmundur að það sé ljóst að Samfylkingin hafi verið eindregið hlynnt veru Íslands í NATO. Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að tillagan nái fram að ganga að þessu sinni segir Ögmundur:

„Ég er ekki svartsýnn á það. Ég ætla að gefa mér að það séu miklar líkur á því að þetta verði samþykkt og að þetta mál gangi til þjóðarinnar til úrlausnar.“ Þjóðin hafi aldrei fengið að kjósa um málið og þannig væri bæði verið að leiðrétta ákveðin söguleg mistök og koma í veg fyrir framtíðarmistök með því að vera í slagtogi með hernaðarstórveldum.

Höfuðstöðvar Nato í Brussel.
Höfuðstöðvar Nato í Brussel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert