Frá því í birtingu í morgun hafa gufubólstrar frá gosinu í Holuhrauni verið nokkuð áberandi að sjá frá mörgum bæjum í Mývatnssveit.
Í kvöld hefur svo bjarmi af eldunum tekið við svo sem sjá má á þessari mynd. Það eru hamrabelti Bláfjalls sem koma inn í myndina.
Fram til dagsins í dag hefur lítið borið á bólstrum eða bjarma frá eldunum í Mývatnssveit.
Mikið sjónarspil blasti við á vefmyndavél Mílu í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands benda sjálfvirkir mælar ekki til þess að eldgosið sé að færast í aukana. Mikill kraftur sé hins vegar í gosinu.