Brottfallið meira á landsbyggðinni

Nýstúdentarnir setja upp húfurnar.
Nýstúdentarnir setja upp húfurnar. mbl.is/Ómar

Haustið 2004 hófu 4.830 nemar nám í dagskóla á framhaldsskólastigi á Íslandi. Fjórum árum síðar, árið 2008, höfðu 45% nýnemanna verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Þá höfðu tæp 28% nýnemanna hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé og sama hlutfall var enn í námi án þess að hafa brautskráðst, segir í frétt Hagstofu Íslands.

Fleiri ljúka námi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þannig höfðu 49% þeirra nýnema, sem hófu nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu haustið 2004 lokið námi árið 2008 en 37% þeirra sem hófu nám í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Fjórðungur nýnema á höfuðborgarsvæðinu hafði hætt námi án þess að útskrifast en tæpur þriðjungur nýnema í skólum utan höfuðborgarsvæðisins.

Brottfallið mest á Íslandi og Lúxemborg innan OECD

Í þeim 25 OECD löndum, sem svöruðu könnun um brautskráningarhlutfall og brottfall af framhaldsskólastigi, sem framkvæmd var árið 2012, höfðu Ísland og Lúxemborg lægsta hlutfall nýnema sem höfðu brautskráðst á réttum tíma. Í Lúxemborg höfðu 45% nýnema á framhaldsskólastigi haustið 2004 lokið námi á tilskildum tíma, eins og á Íslandi, en þar í landi er algengt að nemendur þurfi að endurtaka námsár í skóla. Tveimur árum síðar höfðu 74% nýnema í Lúxemborg brautskráðst en 58% íslenskra, og er Ísland þar í neðsta sæti þeirra 14 OECD ríkja sem höfðu sambærilegar tölur.

Að meðaltali höfðu 70% nýnema á framhaldsskólastigi í OECD löndunum brautskráðst á réttum tíma. Tveimur árum eftir að námi átti að vera lokið hafði hlutfall brautskráðra hækkað í 85%. Þess skal getið að framhaldsskólanám er mislangt í OECD ríkjunum. Algengt er að það sé 3 ár en í sumum löndum er það 2 ár en í öðrum 4 ár, eins og á Íslandi. Þá eru nemendur á Íslandi eldri en í flestum öðrum OECD löndum þegar þeir ljúka framhaldsskóla á réttum tíma.

Í öllum OECD löndum með sambærileg gögn hefur hærra hlutfall kvenna en karla lokið framhaldsskólastigi á réttum tíma. Að meðaltali luku 74% kvenna og 66% karla námi á réttum tíma. Á Íslandi er meiri munur á milli kynjanna, þar sem 52% kvenna og 38% karla brautskráðust á réttum tíma.

Brottfallið meira hjá innflytjendum

Haustið 2004 hófu 175 innflytjendur nám í dagskóla á framhaldsskólastigi. Fjórum árum síðar höfðu 26% þeirra útskrifast. Tveimur árum seinna hafði brautskráningarhlutfallið hækkað í 31%.

Brautskráningarhlutfall er hæst meðal nemenda fæddra erlendis af íslenskum uppruna en 62% þeirra sem hófu nám haustið 2004 höfðu útskrifast árið 2008. Ef litið er á nýnema haustið 2004 án erlends bakgrunns höfðu 45% útskrifast af framhaldsskólastigi fjórum árum síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert