„Ég er orðinn fund-leiður“

Reynir Traustason á fundinum í dag.
Reynir Traustason á fundinum í dag. KRISTINN INGVARSSON

„Þetta eru endalaus átök um atkvæði og umboð,“ sagði Reynir Traustason, ritstjóri DV, í samtali við mbl.is nú í kvöld, en aðalfundur DV hófst öðru sinni á Reykjavík Hótel Natura klukkan þrjú í dag. Fundinum var frestað síðastliðinn föstudag vegna ágreinings um ársreikninga. Fundurinn stendur ennþá yfir, og segir Reynir ekki sjá fyrir endann á honum. „Ég er orðinn fund-leiður.“

Á dagskrá framhaldsfundarins er meðal annars kosning nýrrar stjórnar útgáfufélags DV.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagðist Reynir Traustason viðbúinn því að láta af störfum sem ritstjóri DV. Þá skrifaði Reynir leiðara í morgun sem hann sagði mögulega sinn seinasta hjá blaðinu. Þar talar hann jafnframt um „hina fjandsamlegu yfirtöku“ og atburði seinustu vikna. 

Harðar deilur hafa verið um eignarhald DV síðustu vikur sem leiddu meðal annars til þess að Þorsteinn Guðnason var settur af sem stjórnarformaður. Reynir og aðrir starfsmenn DV hafa sakað Þorstein um að standa fyrir fjandsamlegri yfirtöku á félaginu.

Þá keypti Björn Leifsson, eigandi World Class, rúmlega 4% hlut í félaginu fyrr í mánuðinum. Þorsteinn kemur þó til með að kaupa hlut hans. Í yfirlýsingu sögðust þeir Þorsteinn og Björn sammála um það að það sé útgáfufélaginu DV ehf. til hagsbóta að Björn og Laugar ehf. hverfi úr hluthafahópnum. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að það sé vilji stærstu eigenda hlutafjár í DV ehf. að stjórn fyrirtækisins endurspegli raunverulegt eignarhald félagsins.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka