Dragnótarbáturinn Ólafur Bjarnason SH frá Ólafsvík fékk bátsflak í nótina þegar skipið var að veiðum vestur af Snæfellsnesi. Flakið var af bát sem fórst fyrir 24 árum á svipuðum slóðum. Báturinn hét Doddi SH-222 og um borð voru þrír menn sem öllum var bjargað heilum á húfi yfir í Auðbjörgu SH.
Greint er frá þessu á vef Skessuhorns. Doddi SH 222 fékk á sig brotsjó út af Rifi 7. febrúar 1990 um hálfa fjórðu sjómílu frá heimahöfn. Í fréttum um slysið segir að talið sé að röð kraftaverka hafi bjargað lífi skipverjanna þriggja, þeirra Þrastar Karlssonar skipstjóra, Ársæls Ársælssonar og Magnúsar Einarssonar. Þröstur segir þannig frá í viðtali við Morgunblaðið um miðnætti sama dag: „Við héldum ró og yfirvegun í því sem við gerðum til að bjarga okkur, þegar þrír brotsjóir höfðu lagt Dodda á hliðina og hvolft honum eftir stutta stund,“ sagði Þröstur í viðtalinu.