Reynir varð undir á fundinum

Frá aðalfundi DV í kvöld.
Frá aðalfundi DV í kvöld. mbl.is/Kristinn

Reynir Traustason, ritstjóri DV, beið ósigur á aðalfundi DV sem lauk í kvöld. Eftir langt þref um umboð hluthafa var gengið til kosninga og varð niðurstaðan sú að Reynir fer með 49,4% hlutafjár en andstæðingar hans 50,6%.

Reynir var spurður eftir fundinn hvaða áhrif þessi niðurstaða hefði á stöðu hans sem ritstjóra. „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vona bara það skýrist sem fyrst. Ég er í þessari vinnu ennþá og bíð bara fyrirmæla nýrrar stjórnar.“

Reynir sagði að Björn Leifsson hefði lýst með afdráttarlausum hætti að hann vildi losna við ritstjórann og fleiri hefðu gefið það sama til kynna. „Ég á því ekki von á að verða lengi þarna. Ég er mjög ánægður með veru mína á DV og það fólk sem ég hef unnið með. Nú er hugur minn hjá starfsfólkinu. Ég hef áhyggjur af því hvað verði um þetta fólk undir nýrri stjórn. Ég ætla að vona að ný stjórn skilji út á hvað þetta gengur allt saman þannig að starfsfólkið sé sæmilega hólpið.“

Tveir fyrrverandi stjórnarformenn DV voru kosnir í stjórnina á ný, þau Lilja Skaftadóttir og Ólafur Magnússon, kenndur við Mjólku. Þorsteinn Guðnason, fyrrverandi stjórnarformaður, á einnig sæti í stjórninni og er talið líklegt að hann verði aftur stjórnarformaður.

Auk þeirra sitja Jón Þorsteinn Gunnarsson og Björgvin Þorsteinsson í stjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert