Blóðrauð sól gegnum gosmökkinn

Nýtt hraunakort frá jarðvísindamönnum á vettvangi í Holuhrauni. Kortið sýnir …
Nýtt hraunakort frá jarðvísindamönnum á vettvangi í Holuhrauni. Kortið sýnir jaðar hraunsins til norðausturs að morgni 6.9.2014 Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Talsvert meira líf er í eldgosinu í Holuhrauni í dag en í gær. Kvikustrókarnir eru um það bil helmingi hærri að meðaltali, segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur á jarðvísindasviði Háskóla Íslands. Þar á Þorvaldur við fyrri gossprunguna en minni virkni er í þeirri sem myndaðist í gærmorgun. Hann segir að virknin sé mest í miðgígnum líkt og undanfarið en einnig er virkni í þeim syðri sem og þeim sem er norðar í sprungunni. „Þetta virðist allt hafa aukist,“ segir Þorvaldur er mbl.is náði sambandi við hann við gosstöðvarnar í Holuhrauni.

„Svo er hraunrennslið einnig meira en í gær,“ segir hann en um kílómetri er eftir í Jökulsá á Fjöllum. Þorvaldur segir að hraunið sé um 11 kílómetra langt og það er að meðaltali um 2 km að breidd og vex enn.

Það er heldur meira í gangi í dag en í gær þrátt fyrir að það sé ekkert dramatískt í gangi. Gasstreymið er meira og sólin er mjög rauð í gegnum skýin. Eiginlega blóðrauð í gegnum gosmökkinn,“ segir Þorvaldur og bætir við að það sé eðlilegt þegar horft er á sólina í gegnum gosmökk sem þennan.

Það er ansi myndarlegur mökkur sem streymir hér austur af gosstöðvunum og sennilega í þriggja til fjögurra kílómetra hæð en mökkurinn er að mestu gas. Við höfum tekið eftir því að nornahár eru að falla til jarðar, fara í vöndla og fjúka eftir sandinum,“ segir Þorvaldur sem þurfti að útskýra fyrir blaðamanni hvað nornahár væru. 

Nornahár eru nálar sem myndast í sprungugosum sem safnast saman í vöndla og líta út eins og hár en eru í raun og veru gjóska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert