„Ég ætlast til þess að vera rekinn, ég segi það bara hreint út. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum þeir ættu að vinna með mér eða ég með þeim. Ég get ekki unnið með huldumönnum, ég bara kann það ekki,“ segir Reynir Traustason en ný stjórn DV var kosin í gær á aðalfundi blaðsins. Eins og margoft hefur komið hefur fram andar köldu á milli Reynis og nýrra eigenda en Björn Leifsson, sem seldi Þorsteini Guðnasyni 4,42% hlut í DV, gerði það að sögn Reynis gegn því loforði að Reynir yrði rekinn.
„Ég er þarna í einhverskonar vistarbandi og bíð bara eftir því að þessir sem náðu völdum standi við loforðið gagnvart Birni í World Class og reki mig. Þeir gáfu auk þess fleirum það loforð,“ segir hann.
Eftir langt þref um umboð hluthafa á fundinum í gær var gengið til kosninga og varð niðurstaðan sú að Reynir fer með 49,4% hlutafjár en andstæðingar hans 50,6%.
„Við töpuðum, það er bara svo einfalt. Það þurfti að fá úrslit og nú er það ljóst að hulduher Sigurðar G. Guðjónssonar hefur sigrað þetta. Það er verst að ég veit ekki nákvæmlega hverjir sigurvegararnir eru, það eru menn með grímur. Það eina sem við vitum er að Þorsteinn Guðnason er að leppa þarna ákveðin kaup og svo er Sigurður G. Guðjónsson orðinn eigandi að stórum hlut. Þetta gerðist nú mikið til á servíettum þarna á fundinum. Það var verið að búa til kaupsamninga á servíettur og deila þeim á milli sín,“ segir hann og bætir við að það taki hann sárt að geta ekki haldið uppteknum hætti á DV áfram.
„Ég hef áhyggjur af blaðamönnum á DV. Menn geta sagt ýmislegt í öllu þessu en ég hef alltaf staðið vörð um blaðamenn, það er sökum þess að ég er sjálfur blaðamaður og ég veit út á hvað þetta gengur. Ég veit að blaðamenn þurfa að hafa einhvern sem stendur með þeim, ritstjóri, eigendur og aðrir. Ég hef haft það að leiðarljósi,“ segir Reynir.
Reynir segist búast við talsverðu róti á DV og að nú þegar hafi nokkur akkeri slitnað frá skipinu.
„Ég held að það sé hver einasti blaðamaður á DV að hugsa sinn gang. Sumir stigu skrefið strax í gær, við misstum út úr ritstjórninni tvo lykilmenn, Aðalstein Kjartansson og Viktoríu Hermannsdóttur. Þetta eru bæði mjög sterkir starfsmenn og eru leiðandi á sínu sviði. Viktoría hefur verið yfirmaður innblaðsins og Aðalsteinn er í nýmiðlunum. Þetta eru tveir lykilstarfsmenn og því gríðarlegt högg að missa þau. Þau voru með umboð frá smærri hluthöfum og sátu fundinn í gær. Ég held að þau hafi verið sannfærð um að það væri hollast hjá þeim að fara frekar en að verða fyrir hefnd huldumannanna. Það er þessi uggur sem er í brjóstum manna, það er að segja spurningin hvað sé að fara að gerast og hví huldumennirnir séu komnir,“ segir Reynir og kveðst lítið geta sagt til um fyrirætlanir nýrra eigenda.
„Þeir munu í rólegheitunum naga þetta að innan held ég. Annars get ég voða lítið sagt til um það. Það eina sem ég veit er að ég finn til mikillar óbeitar í garð þessara andlitslausu manna. Ég er engu að síður undarlega sáttur líka en það er nú bara sökum þess að lífið heldur áfram,“ segir Reynir bjartsýnn.
Reynir segir það einfaldlega ekki í myndinni að halda áfram sem ritstjóri DV svo lengi sem ekki verði tryggt blaðinu dreift eignarhald.
„Ef menn fara í það að dreifa eignarhaldinu þá er ég alveg til í að vera áfram og vinna með fólkinu mínu í einhvern tíma,“ segir hann en kveðst þó ekki klár á því hvað framtíðin beri í skauti sér ef svo verði ekki gert.
„Ég er fjölmiðlamaður. Menn geta ornað sér við það, nú eða brennt sig á þeirri pælingu, í hvaða átt ég stefni. Ég fæ kveðjur hvaðanæva að um að menn vilji hafa þá gerð af fjölmiðli sem DV er í umferð, það er að segja þessi aggressíva blaðamennska. Svoleiðis fjölmiðill verður alltaf til. Allir huldumenn Íslands geta ekki sameinast um að drepa niður slíka fjölmiðla. Það er bara ekki hægt,“ segir Reynir ákveðinn. Hann kveður nýja stjórn ekki hafa rætt við sig um áframhaldandi starf eða hver gæti komið til með að taka við af sér.
„Þeir hafa ekki einu sinni haft manndóm til að segja við mig að ég verði látinn fara. Hafa þeir ekki verið að tala við Björn Þorláksson á Akureyri? Ég les þetta bara hér og þar. Auðvitað munu einhverjir stökkva á þann vagn og taka við ritstjórnarstarfi ef það býðst. Vonandi verður það einstaklingur sem stendur upp í hárinu á þessum öflum eða lætur allavega ekki ýta sér út í neina vitleysu. Ef það kemur góður ritstjóri inn þá er ég bara sáttur fyrir hönd DV,“ segir hann að lokum.