„Þetta er í fyrsta skiptið sem það eru hlutfallslega fleiri teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna en áfengis. Auk þess hafa aldrei verið fleiri ökumenn undir áhrifum fíkniefna teknir eftir að hafa lent í umferðaróhöppum. Það er mjög umhugsunarverð þróun og full ástæða til þess að hver og einn leggi sitt af mörkum gegn akstri undir áhrifum vímuefna,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hann segir þetta koma fram í gögnum sem tekin eru saman af Upplýsinga- og áætlanadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tekur til tímabilsins 1. janúar til 1. september árin 2013 og 2014.
„Það gætu verið ýmsar ástæður fyrir þessari þróun. Meðal annars bara aukning fíkniefna í umferð. Það eru allavega fleiri að neyta fíkniefna og setjast síðan undir stýri en áður,“ segir hann.
Ómar segir lögregluna meðvitaða um þessa þróun og að hún muni bregðast við henni.
„Lögreglumenn eru betur búnir og meira meðvitaðir um þann möguleika að ökumaður gæti hugsanlega verið undir áhrifum fíkniefna. Þeir gera því betri ráðstafanir en þeir hafa ef til vill gert áður,“ segir Ómar en hann segir þetta þó langt frá því að vera einu ástæðu þess að fleiri séu teknir undir áhrifum fíkniefna.
„Lögreglumenn eru með sérstök áhöld á sér sem þeir geta notað til að greina hvort viðkomandi hafi neytt fíkniefna og gengið þannig úr skugga um það á vettvangi. Auk þess eru þeir búnir að fá fræðslu og kennslu í greiningu á slíkum aðstæðum,“ segir hann að lokum.