Hefur rætt við mögulega ritstjóra

„Við erum búin að ræða við nokkra aðila um að taka við ritstjórnarstarfi DV,“ segir Þorsteinn Guðnason, einn eigenda og stjórnarmeðlimur DV.

„Eftir þessar yfirlýsingar Reynis þá verðum við náttúrlega að standa klár á því að ef svo fer að hann lætur af störfum, þá séum við undirbúin og búin að ræða við nokkra aðila um að taka við starfinu. Við höfum þó engum boðið starfið. Við höfum bara rætt við aðila um þann möguleika ef til þess kæmi. Við vorum ekki í neinu umboði til þess að ráða eða bjóða starfið fyrir fundinn í gær,“ segir Þorsteinn.

„Ég talaði tvisvar við Björn Þor­láks­son í síma. Ég spurði hann að því að ef til þess kæmi, hvort hann myndi hafa áhuga á starfinu. Hann tjáði mér að svo væri. Svo hringdi hann í mig tveimur dögum síðar og sagðist ekki hafa áhuga á starfinu vegna tiltekinna aðstæðna,“ segir Þorsteinn og kveðst ennfremur ekki tilbúinn að nefna fleiri nöfn í þessi samhengi. Hann segir þetta allt skýrast á næstu dögum, meðal annars hvort Reynir láti af störfum eða ekki.

„Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um það hvort Reynir verði látinn fara eða ekki en mér sýnist hann hafa áhuga á því sjálfur að stíga frá. Það er stjórnarfundur á morgun og þá verður málið skoðað,“ segir hann. 

Segir huldumenn Reynis vera uppspuna

Þorsteinn þvertekur fyrir að hafa lofað Birni Leifssyni einu né neinu en Reynir hefur meðal annars látið hafa það eftir sér í samtali við mbl.is að Björn hafi selt Þor­steini 4,42% hlut í DV gegn því lof­orði að Reyn­ir yrði rek­inn.

„Það er algjörlega af og frá. Þetta er bara einhver tilbúningur. Þetta er eins og svo margt annað í þessu máli að þetta er algjört bull,“ segir Þorsteinn ákveðinn. Hann gefur auk þess lítið fyrir þær ásakanir Reynis um að ákveðnir „huldumenn“ standi að baki kaupunum á DV.

„Reynir talar um svo margt sem ekki er sannleikur. Það er bara þannig. Það eru hvorki huldumenn né konur að baki þessum kaupum,“ segir hann. Þorsteinn segist enn fremur ekki líta á brotthvarf Viktoríu Hermannsdóttur og Aðalsteins Kjartanssonar, sem starfað hafa í ritstjórn blaðsins og létu af störfum eftir fundinn í gær, sem vantraust á nýja stjórn og nýja eigendur.

„Auðvitað viljum við halda í starfsfólkið. Félagið er einskis virði án starfsfólks. Það verður starfsmannafundur á mánudaginn klukkan níu þar sem við munum gera grein fyrir okkar afstöðu og framtíðarsýn sem er frjálst og óháð dagblað með virkri rannsóknarblaðamennsku,“ segir hann. 

Segir aldrei hafa verið dreift eignarhald á DV

„Það er ákvæði í samþykktum félagsins sem er svolítið undarlegt og hópurinn sem var á móti okkur á fundinum í gær beitti því einmitt fyrir sér. Það er 5. grein, þriðja málsgrein, og tekur til 5% atkvæðareglu,“ segir Þorsteinn. 

„Svona ákvæði er algjör undantekning í samþykktum félaga. Ég bara veit hreinlega ekki til þess að svona ákvæði séu í samþykktum fyrir utan DV. Reyndar er það þannig að þeir sem sömdu þetta á sínum tíma voru ekkert að fjalla um atkvæðisrétt, þeir voru að fjalla um það að þegar hlutabréf sem eru meira en 5% skipta um eigendur, þá skuli stjórn vita af því og veita samþykkt,“ segir hann. 

„Það hefur aldrei verið dreift eignarhald á blaðinu þó að menn hafi talað um það. Það liggur heldur ekkert fyrir um eitt né neitt í því samhengi. Það sem við gerum núna næstu mánuði er að ná áttum og sjá hvar við erum og hvert við förum. Við munum færa út kvíarnar, við munum stækka og gera þetta félag að arðbærari einingu,“ segir hann og bætir við að á sínum tíma hafi tveir eigendur meðal annars átt 30% í félaginu DV. 

„Þó að þessi hugmynd um dreift eignarhald hafi verið göfug, þá náðist hún aldrei fram,“ segir hann. 

„Í dag á enginn meira en rúm 21% í félaginu og það verður ekki breyting þar á mér vitanlega. Það getur þó náttúrlega vel verið að einhverjir vilji selja hlut, kaupa hlut eða að einhver annar komi nýr inn í félagið. Það er þó ekkert markmið í sjálfu sér,“ segir Þorsteinn að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert