Mesta sig síðan mælingar hófust

Mynd NASA af Bárðarbungu og eldstöðvunum í Holuhrauni
Mynd NASA af Bárðarbungu og eldstöðvunum í Holuhrauni NASA

Í eftirlitsflugi í gær var yfirborð Bárðarbungu mælt með radarhæðarmæli flugvélar Ísavia. Mælingarnar sýna miklar breytingar á yfirborði Bárðarbungu. Allt að 15 metra lækkun hefur orðið í miðju öskjunnar og nemur rúmmálsbreytingin um 0,25 km3. Lögun dældarinnar er í samræmi við að botn öskjunnar hafi sigið sem þessu nemur.

Sig af þessari stærðargráðu hefur ekki orðið á Íslandi síðan mælingar á jarðskorpuhreyfingum hófust hérlendis um miðja síðustu öld. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun.

 Engin merki sjást um eldgos eða aukinn jarðhita í Bárðarbunguöskjunni.

 Rúmmál sigsvæðis í Bárðarbungu er verulegur hluti af áætluðu heildarrúmmáli kvikugangsins.  

Sennilegasta skýringin er að þetta sig sé í tengslum við mikla jarðskjálftavirkni undanfarið og kvikustreymi neðanjarðar til norðausturs.

Í eftirlitsfluginu í gær fannst breið og grunn sigdæld í Dyngjujökli 10 km frá jökuljaðri. Önnur dæld 6 km frá sporði Dyngjujökuls sem fylgst hefur verið með undanfarna daga hefur farið dýpkandi og mældist 35 m djúp.

 Sennilegt er að þessar dældir séu merki um stutt smágos sem orðið hafa undir jöklinum.

Ekkert dregur úr gosinu í Holuhrauni. Gosvirkni er á tveimur sprungum. Megingosið er á sömu sprungu og verið hefur virk frá upphafi. Auk þess er enn gosvirkni á sprungu sem opnaðist í gærmorgun. Hrauntungan nær nú 10 km til ANA og á tæpan km eftir í Jökulsá  á Fjöllum.

Dregið hefur úr skjálftavirkni á svæðinu síðan í gær. Um 90 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Einn jarðskjálfti 5 að stærð mældist við Bárðarbunguöskjuna kl. 05:40 í morgun. 14 skjálftar hafa orðið stærri en 5 við Bárðarbungu síðan 16. ágúst.

Litlar breytingar eru jarðskorpuhreyfingum norðan Vatnajökuls, mældum með GPS, síðan í gær.

Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

o   Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og kvika brjótist ekki til yfirborðs á fleiri stöðum.

o   Gangurinn nái til yfirborðs á fleiri stöðum utan jökuls. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

o   Gangurinn nái til yfirborðs undir jökli aftur og leiði jafnvel til umtalsverðs eldgoss. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

o   Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Friðrik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert