Á stjórnarfundi hjá DV ehf. í dag var Hallgrímur Thorsteinsson ráðinn ritstjóri DV og dv.is. Hann tekur við af Reyni Traustasyni sem hefur verið leystur undan starfsskyldu um sinn. Hallgrímur hefur störf á morgun.
Stjórn DV hefur ákveðið að láta fara fram tvíþætta úttekt á félaginu. Í fyrsta lagi verður farið yfir rekstur og fjármál félagsins og í öðru lagi mun fara fram skoðun á faglegum þáttum í ljósi ábendinga sem fram hafa komið.
Óháðir aðilar verða fengnir til að vinna þessar úttektir fyrir stjórn félagsins.
Boðaður hefur verið starfsmannafundur á mánudag, þar sem starfsfólki verður gerð fyllri grein fyrir framtíðaráformum og hvernig ný stjórn ætlar að tryggja að DV verði áfram sjálfstæður og óháður fjölmiðill.
Ný stjórn var kosin á framhaldsaðalfundi útgáfufélags DV á föstudag. Nýja stjórnin fundaði á föstudagskvöld og skipti með sér verkum.
Stjórnarformaður er Þorsteinn Guðnason. Aðrir stjórnarmenn eru; Lilja Skaftadóttir, Ólafur Magnússon, Jón Þorsteinn Gunnarsson og Björgvin Þorsteinsson. Bæði Lilja og Ólafur koma á nýjan leik inn í stjórnina og hafa bæði gegnt stjórnarformennsku í félaginu áður, segir í tilkynningu sem Þorsteinn sendi frá sér en fyrir nokkrum klukkutímum sendi Ólafur Magnússon frá sér tilkynningu um að hann væri hættur í stjórninni.
Í tilkynningu kemur fram að Hallgrímur er með áratugareynslu af fjölmiðlum. „Hann hefur átt farsælan feril í frétta- og þáttastjórn í útvarpi og jafnframt stýrt uppbyggingu vefmiðla. Hallgrímur er með meistarapróf í gagnvirkri miðlun frá New York University. Fagnar ný stjórn því að fá svo öflugan mann til að leiða DV inn í nýja tíma,“ segir í tilkynningu.
Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV, segir í tilkynningu:
„Við ætlum okkur að efla og styrkja félagið. DV er fjölmiðill sem er mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Blaðið hefur lagt stund á rannsóknarblaðamennsku og er það ætlun nýrrar stjórnar að halda áfram á þeirri braut. Slík blaðamennska gerir miklar kröfur til þeirra sem hana stunda og um leið þarf að vera hafið yfir allan vafa að ritstjórnin sé sjálfstæð og öllum óháð.
Það er mín von að þau átök sem verið hafa um útgáfufélagið séu nú að baki og að við öll sem að DV stöndum, berum gæfu til þess að horfa fram á veginn og kappkosta að búa til góðan fjölmiðil. Við ætlum okkur stóra hluti með DV og dv.is og ráðning reynsluboltans Hallgríms Thorsteinssonar er vonandi fyrsta skrefið af mörgum í þá átt.“
Hallgrímur Thorsteinsson, segir í fréttatilkynningu:
„Mér er það kappsmál að DV skipi áfram sinn sterka sess sem framvörður íslenskrar fréttamennsku og haldi áfram að rjúfa þögnina þar sem aðrir vilja láta kyrrt liggja. Ég hlakka til að hefja störf með öflugum hópi fagfólks á þessum mikilvæga fréttamiðli.”