Hraunið rennur kílómetra á dag

Photo/Guðmundur Karl Sigurdórsson

Hraunið sem myndast vegna gossins í Holuhrauni gengur fram um kílómetra á dag. Alls hefur nú myndast um 16 ferkílómetra hraunsvæði vegna gossins og ekkert bendir til þess að dragi úr gosinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er kvikustreymi úr gosinu á milli 100 og 200 rúmmetrar á sekúndu. 

Hrauntungan nær nú 11 km til austurs og hefur hún náð út í Jökulsá á Fjöllum líkt og mbl.is greindi frá í morgun. Ekki hefur orðið vart við neina sprengivirkni þar sem áin og hraunið mætast en gufa stígur upp úr hrauninu. 

Skjálftavirknin á svæðinu er með svipuðu móti og undanfarna daga. Um 140 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, sá stærsti í Bárðarbungu um sjöleytið í morgun. Sá var 5,4 að stærð. Er það með stærri skjálftum sem mælst hafa á svæðinu frá því að umbrotin hófust hinn 16. ágúst. 

Samkvæmt Veðurstofu er nú unnið með fjórar mögulegar sviðsmyndir fyrir framhaldið. 

  1. Að innflæði kviku stöðvist, skjálftahrinan fjari út og kvika brjótist ekki til yfirborðs á fleiri stöðum.
  2. Gangurinn nái til yfirborðs á fleiri stöðum utan jökuls. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
  3. Gangurinn nái til yfirborðs undir jökli aftur og leiði jafnvel til umtalsverðs eldgoss. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
  4. Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki sé þó hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka