Hraunið sem myndast vegna gossins í Holuhrauni gengur fram um kílómetra á dag. Alls hefur nú myndast um 16 ferkílómetra hraunsvæði vegna gossins og ekkert bendir til þess að dragi úr gosinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er kvikustreymi úr gosinu á milli 100 og 200 rúmmetrar á sekúndu.
Hrauntungan nær nú 11 km til austurs og hefur hún náð út í Jökulsá á Fjöllum líkt og mbl.is greindi frá í morgun. Ekki hefur orðið vart við neina sprengivirkni þar sem áin og hraunið mætast en gufa stígur upp úr hrauninu.
Skjálftavirknin á svæðinu er með svipuðu móti og undanfarna daga. Um 140 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, sá stærsti í Bárðarbungu um sjöleytið í morgun. Sá var 5,4 að stærð. Er það með stærri skjálftum sem mælst hafa á svæðinu frá því að umbrotin hófust hinn 16. ágúst.
Samkvæmt Veðurstofu er nú unnið með fjórar mögulegar sviðsmyndir fyrir framhaldið.
Ekki sé þó hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.