„Stefna blaðsins er óbreytt“

Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV.
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV.

„Þetta hafði stuttan aðdraganda,“ segir Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri DV og dv.is. Hallgrímur var ráðinn ritstjóri á stjórnarfundi DV í dag og tekur við af Reyni Traustasyni sem hefur verið leystur undan starfsskyldu um sinn. „Fyrir nokkrum dögum spurði Þorsteinn mig hvort ef til þess kæmi ég væri tilbúinn að taka að mér þetta starf. Ég hugleiddi það um nokkra stund og svo þróaðist það út frá því,“ segir Hallgrímur.

Miðillinn hefur verið umdeildur að undanförnu, en Reynir sakaði Þorstein Guðnason, stjórnarformann DV, um fjandsamlega yfirtöku á félaginu. Þá kom Björn Leifsson, eigandi World Class, inn sem hluthafi í félaginu fyrir skemmstu til þess eins að bola Reyni út, áður en hann seldi hlut sinn aftur. „Ætli maður sé ekki ævintýramaður,“ segir Hallgrímur spurður hvort atburðir síðustu vikna hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun hans. „Það kom smá hik en verkefnið var of spennandi fyrir mann með ólæknandi fjölmiðlabakteríu.“

Miðillinn og fólkið heillaði

Hallgrímur segir miðilinn og fólkið hafa heillað hann, og það hlutverk sem DV gegnir. „Staðan og titillinn er aukaatriði. Það er frekar tækifærið til að vinna með þessu fólki á mikilvægum miðli á mikilvægum tímum,“ segir hann.

Hallgrímur segir ritstjórnarstefnuna ekki munu breytast. „Ég sé ekki að stefnan muni breytast. Það getur orðið blæbrigðamunur, en það verður það alltaf þegar nýir stjórnendur taka við, en stefna blaðsins er óbreytt,“ segir hann. „Það er fásinna fyrir fólk sem ætlar að reka DV áfram að fara að búa til einhverja aðra stefnu úr miðlinum en er. Það er eins og að breyta spíttkerru í dúkkuvagn.“

Mun ekki taka þátt í þöggun í samfélaginu

Eins og áður sagði hefur miðillinn verið umdeildur að undanförnu, og hefur Björn meðal annars talað um að Reynir sé „mannorðsmorðingi“. Hallgrímur segir þetta ekki breyta stefnu blaðsins, og hún muni haldast. „Ég held að þessi fasta blaðamennska sem DV hefur stundað geri það að verkum að miðillinn er á köflum óvæginn en hann má líka vera það. Það má vel vera að DV hafi misstigið sig í einstaka málum en það fylgir líka landslaginu og þeim leiðum sem hann fer. DV hefur alla tíð haft forustu um það að láta mál ekki liggja í þagnargildi í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla. Þetta er eðlileg slóð sem blaðið hefur fetað samkvæmt sinni sannfæringu í gegnum tíðina og það hefur afleiðingar og fylgir þessari stefnu sem blaðið hefur tekið; að stinga á málum. Þá verða margir sárir oft á tíðum,“ segir hann. „Þrátt fyrir tal um þöggun þá verður það engan veginn. Stefnan er frekar að efla miðilinn, bæði blaðið og dv.is og efla þetta hlutverk sem felst í því að taka alls ekki þátt í neinni þöggun í samfélaginu.“

Hallgrímur hefur verið með fastan þátt á Rúv, Vikulokin, en mun hætta með hann. Hann tekur við ritstjórahlutverkinu á morgun. „Það er starfsmannafundur strax í fyrramálið svo þá fæ ég tækifæri til að hitta þetta góða fólk og kynnast því,“ segir hann. „Ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu.“

Frétt mbl.is: Hallgrímur Thorsteinsson ráðinn ritstjóri DV

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert