„Það blundar í mér bóndi“

Andrea Róbertsdóttir
Andrea Róbertsdóttir Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Andrea Róbertsdóttir, sem nýlega tók við starfi mannauðsstjóra Ríkisútvarpsins, mætir til vinnu með jákvæðnina og gleðina að vopni. Hún hefur unnið „25 stundir á dag, átta daga vikunnar“ undanfarið við að endurskipuleggja húsakynni RÚV í Efstaleitinu en hvergi er þó af henni dregið.

Hún keypti sér strigaskó þegar hún byrjaði í nýju vinnunni en dauðsér eftir að hafa ekki fengið sér skrefamæli líka. Hún hefur nefnilega gengið og jafnvel hlaupið ófáa kílómetrana í útvarpshúsinu í Efstaleiti síðustu vikur og mánuði enda hvílir umsjón með þeim miklu breytingum sem þar standa yfir á hennar herðum sem formanns vinnuhóps um húsnæðisbreytingar. Og Andrea Róbertsdóttir nýtur hverrar mínútu í þessari „25 stunda og átta daga vinnuviku“. Hér er hún í essinu sínu. Það kemur sér stundum vel að vera hvort tveggja í senn, „excel“ og „fiðrildi“.

„Það þýðir ekkert að vera á pinnahælum og dragt í þessu starfi,“ segir Andrea hlæjandi meðan hún sýnir mér aðstæður í Efstaleitinu. Búið er að brjóta niður veggi og auka flæðið í húsinu til muna. Tilgangurinn er einfaldur: Að þétta raðirnar og hvetja starfsfólk til að tala meira saman, óháð miðlum og deildum. „RÚV er eins og mannslíkami,“ segir Andrea. „Við erum öll að vinna verðmæt störf, líkt og líffæri hafa sín hlutverk. Við getum ekki öll verið eins og því er mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum og átta sig á að við getum verið ólík en jafn góð.“ Hún brosir.

Majónesið gulnar ekki hér!

Það er lítill stofnanabragur á Andreu þar sem hún skoppar um ganga á strigaskónum, heilsandi fólki kumpánlega, hægri, vinstri. Vel er tekið undir kveðjurnar. Auglýsingadeildin heilsar meira að segja í einum kór – og brestur svo í hlátur. Augljóslega einhver innanhúshúmor. „Mér hefur aldrei þótt óþægilegt að fara út fyrir rammann, reyna á mig og læra nýja hluti,“ trúir Andrea mér fyrir, „og fer ekkert að breyta því hérna. Ég er ennþá að læra að vera Andrea mannauðsstjóri RÚV og hef upplifað fjölmörg „aha-augnablik“ síðan ég tók við. Það eru næg verkefni á borði mannauðsstjóra og mikilvægt að forgangsraða og minna sig stöðugt á hvernig á að borða epli, taka einn bita í einu. Alltaf er ég að læra eitthvað nýtt, geri mistök eins og hver annar og óska mér á stundum að eiga stórt strokleður. En svona er lífið. Það eina sem býr mann undir lífið er lífið sjálft!“

Iðnaðarmenn heilsa líka hver af öðrum – með baráttuhróp á vörum. „Hvað heldur þú?“ svarar Andrea einum þeirra. „Majónesið gulnar ekki hér!“

Það hefur ekki verið létt verk að snúa RÚV á hvolf, Andreu reiknast til að búið sé að færa flesta starfsmenn, ef ekki alla. „Ég þekki orðið hvern krók og kima í þessu húsi og gæti bent þér á hverja einustu innstungu,“ heldur hún áfram brosandi.

Kannski seinna!

Eins og fram hefur komið er búið að tæma tvær efstu hæðir útvarpshússins með það fyrir augum að leigja þær út. Það er, að sögn Andreu, afleiðing en ekki orsök breytinganna. „Þegar við fórum að skoða málið kom í ljós að unnt var að rýma fjórðu og fimmtu hæðina og núna bíðum við bara spennt eftir leigjendum,“ segir hún.

Andrea hefur reynslu af verkefnastýringu og því að flytja fyrirtæki en hún var forstöðumaður mannauðssviðs Tals þegar fjarskiptafyrirtækið flutti af Suðurlandsbraut og upp í Grímsbæ. „Aðbúnaður og þá jafnvel flutningar hvíla oft á herðum mannauðsstjóra og bæði hafa þessi verkefni verið mjög skemmtileg enda þótt þau séu ólík að því leyti að Tal flutti milli staða en hérna erum við að flytja fólk til innanhúss. Það er að sumu leyti snúnara að flytja innanhúss og ég segi stundum að þetta sé dálítið eins og að pakka svefnpoka. Frekar auðvelt til að byrja með en síðan verður þetta erfiðara og þá er mikilvægt að búa að þekkingu og lagni. Ég er ekki týpan sem gefst upp. Reyni reglulega að gera það sem ekki á að vera hægt. Samkvæmt Vísindavefnum á til dæmis hvorki að vera hægt að kítla sjálfan sig né hnerra með opin augun og auðvitað hef ég reynt bæði.“

Ein af nýjungunum í útvarpshúsinu er Torgið, þar sem starfsmenn koma saman og fá sér kaffi eða aðra slíka heilsustyrkjandi drykki í amstri dagsins. Torgið leysir af hólmi hina ýmsu kaffikróka sem áður voru í húsinu. „Okkur þótti mikilvægt að búa til sameiginlegt rými á góðum stað í húsinu, þar sem fólk gæti komið saman, fengið sér kaffi og skipst um leið á skoðunum og hugmyndum. Þessi nýbreytni hefur mælst vel fyrir og það er alltaf líf og fjör við kaffivélina. Þar rekst maður líka á gesti á leiðinni úr og í viðtöl og jafnvel grímuklætt fólk sem er í pásu frá sjónvarps- eða kvikmyndaupptökum. Það er upplifun að mæta til vinnu. Það hefur ekki verið slæmt að skála í morgunkaffi við Sveppa og Villa uppáklædda við kaffivélina á Torginu en þeir hafa verið að taka upp nýjustu myndina sína í húsinu. Leiðindin ekki að þvælast þar fyrir.“

Glöð með andann í húsinu

Hvað húsgögn varðar segir Andrea þetta einkum og sér í lagi hafa verið spurningu um að einfalda og endurraða. Þá sé alltaf gott að geta leitað í smiðju til leikmunadeildar RÚV. Allskyns mublur hafa fengið nýtt hlutverk.

Spurð hvernig fólk hafi tekið húsnæðisbreytingunum kveðst Andrea ekki verða vör við annað en ánægju almennt. „Það tekur alltaf tíma að vinna traust starfsfólksins en ég er ofsalega glöð með andann í húsinu. Fólk er upp til hópa mjög jákvætt í garð þessara breytinga. Auðvitað taka breytingar mismikið á fólk almennt og mikið er ég þakklát þegar fólk er til í að gefa hugmyndum sem eru í mótun smá séns. Breytingarnar hér í Efstaleitinu hefðu ekki gengið svona vel án gefandi samvinnu deilda og iðnaðarmanna en þessar tilfærslur hafa gefið mér tækifæri til að kynnast starfsfólkinu hraðar og betur en ella. Fyrir það er ég þakklát. Ég hef mikinn metnað, fyrir mína eigin hönd og annarra, en það er líka mikilvægt fyrir mannauðsstjóra að hlusta á fólk. Það er engin tilviljun að við erum með tvö eyru en bara einn munn. Húsnæðismálin hafa verið mest áberandi hlutverk mitt sem mannauðsstjóri RÚV en að sjálfsögðu er ég að sinna klassískum mannauðsmálum sem ég er ráðin til. Ég er mikið fyrir fullorðið fólk. Þetta snýst um réttindi og skyldur og mér finnst afar skemmtilegt að hjálpa fólki að nota gáfur sínar í starfi og einkalífi. Mínar dyr standa alltaf opnar og ég hvet fólk til að leita til mín með hvaðeina sem því liggur á hjarta. Engin spurning er asnaleg!“

Andrea lofar að mæta sínum verkefnum af auðmýkt og gleði. „Þú getur ekki lýst upp myrkur með myrkri og gleði er því fagmennska fyrir mér. Ég hef tileinkað mér gleðina í mínum störfum en ef fólk kærir sig ekki um þá nálgun virði ég það líka. Ég hef slípast í þessu gegnum árin og fagna fjölbreytileikanum. Þetta snýst að mínu viti um að velja sér viðhorf á morgnana, ef við mætum klyfjuð í vinnuna á hverjum morgni er hætta á því að við spriklum bara í fósturstellingunni. Það eru allir með sín verkefni í lífinu og mörg þeirra langt frá því að vera karamelluhúðuð. Hver og einn einstaklingur er heill heimur útaf fyrir sig.“

Örugglega sá kurteisasti

Nýi útvarpsstjórinn, Magnús Geir Þórðarson, er ekki síður þekktur fyrir jákvæðni og gleði, þar sem hann hefur stjórnað, og Andrea kveðst hlakka til að vinna áfram með honum. „Við þekktumst sáralítið áður en ég hef aldrei unnið með stjórnanda sem hefur jafn mikinn áhuga á öllum þáttum rekstursins og Magnús Geir. Hann er einn jákvæðasti maður sem ég hef kynnst og örugglega sá kurteisasti og nærgætnasti. Það er kúnst að vera innilegur og tapa ekki gleðinni í miklum hraða en hér er fagmaður á ferð. Hann hefur þessa útgeislun og metnað fyrir hönd RÚV. Og eftir höfðinu dansa limirnir.“

Andrea er með BA-gráðu í félags- og kynjafræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Áður en Andrea hóf störf hjá RÚV starfaði hún sem verkefnisstjóri hjá Hjallastefnunni en frá 2010-13 var hún forstöðumaður mannauðssviðs Tals. Andrea hefur einnig víðtæka reynslu úr fjölmiðlum sem dagskrárgerðarkona og framleiðandi.

Spurð hvers vegna hún hafi sóst eftir starfi mannauðsstjóra RÚV svarar Andrea því til að henni hafi alltaf þótt vænt um Ríkisútvarpið og eigi bjartar minningar því tengdar, allt frá því hún hlustaði á morgunleikfimina með ömmu sinni þegar hún var lítil. Þá kveðst hún elska lógó stofnunarinnar. Yfir því sé stíll „enda verðlaunað vörumerki“.

Sjá viðtalið í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert