Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra, segir á heimasíðu sinni að hann muni kalla eftir skýringum á Alþingi á því hvers vegna einungis verði notast við rafræn auðkenni bankanna við skráningu í skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, en ekki Íslykil Þjóðskrár.
„Við ríkisstjórnarskiptin var þessi þráður tekinn upp að nýju og nú tekur út yfir allan þjófabálk þegar ríkisstjórnin, hluti hennar eða embættismenn, taka þá ákvörðun að gera það að skilyrði fyrir skuldaleiðréttingu að notast sé við rafræn auðkenni bankanna eða veflykil ríkisskattstjóra en Íslykill Þjóðskrár ekki einu sinni valkostur! Nú hefur síðan lykill skattstjóra verið tekinn út og auðkenni bankanna gert að skilyrði. Með öðrum orðum, ríkið ætlar án haldbærra raka að hafna eigin þjónustu,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sinni í dag.
Hver tók þessa ákvörðun og á hvaða forsendum var það gert? Þetta vil ég fá að vita og mun ég grennslast fyrir um þetta þegar vettvangur til fyrirspurna skapast á Alþingi,“ spyr Ögmundur síðan.
Sjá pistil Ögmundar