Davíð Már Stefánsson
Þrír einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir að aka á tveimur bílum inn á gosstöðvarnar í Holuhrauni á föstudaginn síðastliðinn. Þetta staðfesti lögreglan á Húsavík í samtali við mbl.is fyrir skemmstu en samkvæmt henni mega þrímenningarnir, sem allir eru íslenskir, eiga von á vænni fjársekt.
Almannavarnir ítrekuðu í kjölfarið að öll umferð um lokaða svæðið norðan Vatnajökuls við gosstöðvarnar væri bönnuð. Samkvæmt tilkynningu almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra stafar hættan aðallega af vatnsflóðum, eitruðum gastegundum, hraunrennsli og steinkasti.
„Það hefur annars ekki mikið borið á því að fólk sé ekki að virða þessar reglur. Flestir hafa nú skilning á því að þetta er ekki svæði fyrir Pétur og Pál,“ bætir fulltrúi lögreglunnar á Húsavík við.