Fleiri starfsmenn DV hætta

„Það hafa fleiri starfsmenn sagt upp á síðustu dögum,“ segir Ingi­björg Dögg Kjart­ans­dótt­ir, aðstoðarrit­stjóri DV, en eins og áður hefur komið fram hafa þau Viktoría Hermannsdóttir og Aðalsteinn Kjartansson látið af störfum sínum í ritstjórn DV. Þetta kemur allt í kjölfarið á nýjum eigendu blaðsins og nýrri stjórnarmyndun. 

„Það eru í heildina fjórir. Ég get ekki sagt til um hverjir það eru aðrir en Viktoría og Aðalsteinn. Það er ekki fólk sem vill láta nafns síns getið í þessari umræðu. Þetta er lítil ritstjórn og hver sem fer skiptir máli,“ segir hún.

Áskrifendur segja upp í hrönnum

Starfsmannafundur var haldinn í morgun þar sem tekist var á um ýmis málefni, meðal annars framgöngu stjórnar og stjórnarmanns gagnvart Reyni Traustasyni, en hann var settur af sem ritstjóri DV í gær og Hallgrímur Thorsteinsson ráðinn. 

„Það var ákvörðun ritstjóra og ritstjórnar eftir fundinn í morgun að það kæmi ekki út blað á morgun. Það er stefnt á blað á miðvikudaginn. Öll þessi átök leggjast illa í lesendur og áskrifendur DV. Við sjáum það bara á því að fólk er búið að segja upp í hrönnum,“ segir Ingibjörg sem segir að enginn lokapunktur hafi náðst á fundinum. Blaðamenn DV voru meðal annars óánægðir með að Reynir hefði verið látinn hætta sem ritstjóri án þess þó að vera formlega rekinn en Ingibjörg segir þetta einungis vera gálgafrest. 

„Þetta er einfaldlega frestun á hans brottrekstri. Blaðamenn voru auk þess ósáttir við yfirlýsingar stjórnarinnar og stjórnarformanns í gær þess efnis að hefja ætti rannsókn á rekstri og fjármálum félagsins og skoðun á faglegu starfi ritstjórnarinnar. Blaðamenn upplifa þetta sem vantraustsyfirlýsingu gagnvart sér. Þeir upplifa að þarna sé verið að draga trúverðugleika og heilindi starfsmanna í efa,“ segir hún að lokum. Þess skal getið að Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV, sendi frá sér yfirlýsingu rétt fyrir vinnslu þessarar fréttar þar sem kemur fram að fallið hafi verið frá því að skoða sér­stak­lega fag­lega þætti í starf­semi DV og segir hann þá ákvörðun vera tekna í ljósi mik­ill­ar óánægju starfs­fólks með þau áform.

Starfsmannafundur DV.
Starfsmannafundur DV. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert