Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skoða nú hvort skíðasvæðið í Bláfjöllum fái að starfa áfram eða hvort hætta þurfi starfseminni sem lið í vatnsvernd fyrir svæðið.
„Svæðið frá Bláfjöllum og niður í Heiðmörk, það er fjöreggið okkar eða allt vatn sem við lifum á,“ segir Páll Guðjónsson, framkvæmdarstjóri samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en vatnsverndaráætlun er í bígerð og mun niðurstaða hennar skera úr um hvort starfsemin sé hættulaus. Páll segir hvað mesta ógn stafa af umferðinni en mengun frá bílum gæti borist i vatnið og spillt því.
Þó ekki hafi verið tekin nein endanleg ákvörðun í málefnum Bláfjallasvæðisins tekur Páll fram að „ef menn ætla að reka skíðasvæði í Bláfjöllum þá verður það ekki gert nema með snjóframleiðslu,“ og skeri þannig úr um að snjóframleiðsla með snjóblásara verði tekin upp ef starfseminni verður haldið áfram.
Magnús Árnason framkvæmdarstjóri skíðasvæðanna segir mikilvægt að hefja snjóframleiðslu á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og hafi öll undirbúningsvinna og greining á þörfinni þegar farið fram. Telur hann það vera til góðs að dreifa þeim fjölda sem sækir skíðasvæðið á fleiri daga yfir árið þannig að starfsemin verði viðráðanlegri bæði í brekkunum og hvað varðar umferðina.
Undanfarin ár hafa skíðasvæðin opnað í lok nóvember og vonast Magnús til að engin breyting verði þar á í vetur, „við treystum bara á guð og snjókomuna, þessa náttúrulegu,“ segir Magnús að lokum.