60% hækkun á einstaklingsherbergjum

Leigumarkaðurinn reynist mörgum erfiður. Mynd úr safni.
Leigumarkaðurinn reynist mörgum erfiður. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á vef Neytendasamtakanna birtist úttekt á leigumarkaði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Í úttektinni, sem gerð er með nokkrum fyrirvörum, kemur meðal annars fram að meðalfermetraverð á leigðum einstaklingsherbergjum hefur hækkað um ríflega 60% síðan í febrúar 2011. 

Verð á tveggja herbergja íbúðum hefur að meðaltali hækkað um 45%, þriggja herbergja íbúðir hafa hækkað um 47% og meðalfermetraverð fjögurra herbergja íbúða hefur hækkað um 34% á milli úttekta Neytendasamtakanna.

Þar er einnig skorað á stjórnvöld að breyta lögum um húsaleigubætur þannig að þær fáist einnig fyrir leigu á stökum herbergjum, en slíkt er ekki í boði í dag. Samtökin telja „herbergjaleigumarkaðinn“ illa kortlagðan.

Úttektin miðaði við stöðuna eins og hún var 2. september. Hér má nálgast hana í heild.

Mikill munur á hæsta og lægsta verði

Í úttektinni segir meðal annars:

„Mikill munur var í könnuninn á milli hæsta og lægsta fermetraverðs. Því segir meðalverðið ekki alla söguna, og gera má ráð fyrir að fermetraverð fari eftir ýmsum þáttum eins og staðsetningu og ástandi eignar.

Þá fer meðalfermetraverð einnig að nokkru eftir stærð íbúðar. Meðalfermetraverð þeirra fjögurra herbergja íbúða sem voru 100 fermetrar eða minni var þannig 1.998 kr., meðan meðalfermetraverð stærri fjögurra herbergja íbúða var 1.801 kr. Þá var meðalfermetraverð þriggja herbergja íbúða sem voru 90 fermetrar eða minni 2.368 kr., en meðalfermetraverð stærri þriggja herbergja íbúða 2.053 kr.

Þá má geta þess að sú stúdíóíbúð sem var auglýst á hæsta verðinu, eða 160.000 kr., hafði raunar lækkað í verði í auglýsingum daginn eftir að könnunin fór fram.“

Skora á stjórnvöld að breyta lögum um húsaleigubætur.

Í úttektinni skora samtökin á stjórnvöld að breyta lögum um húsaleigubætur þannig að þeir sem leigja stök herbergi eigi rétt til húsaleigubóta:

„[...] Húsaleigubætur (af óskiljanlegum ástæðum) „greiðast ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum“ (3. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur).

Er hér með skorað á stjórnvöld að huga sérstaklega að þessum hópi, en einnig má gera ráð fyrir að samningum um leigu á einstaklingsherbergjum sé sjaldnast þinglýst og „herbergjamarkaðurinn“ því lítið eða ekkert kortlagður. Má ætla að það auðveldi einnig útleigu á húsnæði sem í raun er ekki hæft til íbúðar, en slík útleiga hefur töluvert verið í umræðunni undanfarin misseri.“

Úttekt Neytendasamtakanna í heild

Af vef Neytendasamtakanna
Af vef Neytendasamtakanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert