Öskjusigið sem hafið er í Bárðarbungu veldur verulegri óvissu um framvindu mála enda hefur slíkur atburður ekki orðið hér á landi síðan Öskjuvatn myndaðist. Þetta segja jarðvísindamennirnir Magnús Tumi Guðmundsson og Páll Einarsson í hugleiðingu á vefsvæði Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
„Öskjusig geta þó ekki talist sjaldgæf á heimsvísu. Askjan í eldfjallinu Piton de la Fournaise á eyjunni Reunion í Indlandshafi seig um 340 m á 10 dögum árið 2007 samfara verulegu gosi í hlíðunum. Fernandina askjan á Galapagos seig um 300 m 1968 við svipaðar aðstæður. Svipaðir atburðir urðu á Kamtsjatka 1975-76 (Tolbachik). Öskjuvatn byrjaði að myndast í umbrotahrinu sem gekk yfir 1874-75 og náði askjan núverandi lögun á nokkru árabili. Þá urðu sprungugos í Sveinagjá, 50-60 km norðan Öskju og mikið sprengigos varð í lok mars 1875 þegar ljóst vikur lagðist yfir hluta Austurlands og öskufall varð í Noregi og Svíþjóð,“ segir í hugleiðingunni.
Þá segir að augljóslega séu tengsl á milli sigsins í Bárðarbungu og gossins í Holuhrauni. „Nærtækt er að atburðarásina megi skýra með kvikuhlaupakenningunni sett var fram í Kröflueldum: Að hraun flæði undan Bárðarbungu, eftir ganginum sem myndast hefur undir Dyngjujökli og komi upp í Holuhrauni. En hvert verður framhaldið? Við núverandi aðstæður getur atburðarásin orðið með margvíslegum hætti. Þær sviðsmyndir sem telja verður líklegastar eru eftirfarandi:
Staðan er óviss og ekki hægt að gera upp á milli þessara valkosta á þessari stundu.“