Öskjusig veldur verulegri óvissu

Sigið hættir áður en það verður mjög mikið og gosið …
Sigið hættir áður en það verður mjög mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út. Mynd/Jarðvísindastofnun Háskólans

Öskjusigið sem hafið er í Bárðarbungu veldur verulegri óvissu um framvindu mála enda hefur slíkur atburður ekki orðið hér á landi síðan Öskjuvatn myndaðist. Þetta segja jarðvísindamennirnir Magnús Tumi Guðmundsson og Páll Einarsson í hugleiðingu á vefsvæði Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

„Öskjusig geta þó ekki talist sjaldgæf á heimsvísu. Askjan í eldfjallinu Piton de la Fournaise á eyjunni Reunion í Indlandshafi seig um 340 m á 10 dögum árið 2007 samfara verulegu gosi í hlíðunum. Fernandina askjan á Galapagos seig um 300 m 1968 við svipaðar aðstæður. Svipaðir atburðir urðu á Kamtsjatka 1975-76 (Tolbachik). Öskjuvatn byrjaði að myndast í umbrotahrinu sem gekk yfir 1874-75 og náði askjan núverandi lögun á nokkru árabili.  Þá urðu sprungugos í Sveinagjá, 50-60 km norðan Öskju og mikið sprengigos varð í lok mars 1875 þegar ljóst vikur lagðist yfir hluta Austurlands og öskufall varð í Noregi og Svíþjóð,“ segir í hugleiðingunni.  

Þá segir að augljóslega séu tengsl á milli sigsins í Bárðarbungu og gossins í Holuhrauni.  „Nærtækt er að atburðarásina megi skýra með kvikuhlaupakenningunni sett var fram í Kröflueldum: Að hraun flæði undan Bárðarbungu, eftir ganginum sem myndast hefur undir Dyngjujökli og komi upp í Holuhrauni.  En hvert verður framhaldið?  Við núverandi aðstæður getur atburðarásin orðið með margvíslegum hætti.  Þær sviðsmyndir sem telja verður líklegastar eru eftirfarandi:

  • Sigið hættir áður en það verður mjög mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út (Sjá mynd A).
  • Sigið heldur áfram og verður jafnvel nokkur hundruð metrar jafnframt því sem gos heldur áfram í Holuhrauni og/eða undir Dyngjujökli.  Reikna verður með að gosið yrði langvinnt og gæti stærð þess mælst í rúmkílómetrum áður en yfir líkur.  Ef gossprungan lengist til suðurs  eða gos opnast á nýjum stað má búast við jökulhlaupum og gjóskufalli.  Ekki er hægt að útiloka að ný sprunga leiti til suðvesturs, opnist undir jökli sunnan bungunnar eða á landi utan jökuls (Mynd B).
  • Að kvikan finni sér leið upp öskjubrotið og að gos hefjist innan öskjunnar.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.   Einnig gæti það gerst að vatnið slyppi ekki út ef sigið væri langt komið þegar gos hæfist.  Það vatn kæmi þá síðar í miklu jökulhlaupi.  Þegar gosið næði í gegnum ísinn myndi gosið breytast í sprengigos með tilheyrandi gjóskufalli (Mynd C).

Staðan er óviss og ekki hægt að gera upp á milli þessara valkosta á þessari stundu.“

Sigið heldur áfram og verður jafnvel nokkur hundruð metrar jafnframt …
Sigið heldur áfram og verður jafnvel nokkur hundruð metrar jafnframt því sem gos heldur áfram í Holuhrauni og/eða undir Dyngjujökli. Mynd/Jarðvísindastofnun Háskólans
Að kvikan finni sér leið upp öskjubrotið og að gos …
Að kvikan finni sér leið upp öskjubrotið og að gos hefjist innan öskjunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka