Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, situr nú á fundi með stjórnendum almannavarna. Þar fær hann að heyra stöðu mála í Bárðarbungu en öskjusig í jöklinum veldur jarðvísindamönnum og almannavörnum nokkrum áhyggjum.
Að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, verkefnastjóra almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, er fundurinn bæði reglulegur stöðufundur vegna jarðhræringa sem þessa en einnig til að greina frá áhyggjum vegna sigsins.
Á fundinum verður farið yfir nokkrar sviðsmyndir sem teiknaðar hafa verið upp vegna umbrotanna.
„Sigið í Bárðarbungu er verulegt áhyggjuefni og fetum við nú ókunna stigu,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við Morgunblaðið í dag og bendir á að askjan í Bárðarbungu hafi nú sigið hátt í 20 metra.
„Þessi askja er full af ís og ef gýs innan hennar þá bræðir gosið aðallega ís sem getur valdið verulegum jökulhlaupum. Ef gosið nær svo í gegn getur orðið verulegt sprengigos,“ segir hann og bendir á að sú atburðarás sem nú er í gangi þurfi ekki endilega að leiða til þessa.
Spurður út í líkur þess að atburðarásin stigmagnist svarar Magnús Tumi í Morgunblaðion í dag: „Vegna þess að askjan er að síga þá eru miklu meiri líkur á því að atburðarásin magnist frá því sem nú er en ef ekki væri öskjusig. Ef sigið verður verulegt og virkni áframhaldandi í öskjunni gæti Bárðarbunga orðið uppspretta jökulhlaupa á komandi árum og áratugum.“