Varaði við varhugaverðum þjóðrembingi

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í kvöld.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Þjóðlegar áherslur forsætisráðherra voru Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar, ofarlega í huga í ræðu sem hann flutti á Alþingi í kvöld um stefnuræðu forsætisráðherra. Sagðist hann sem Íslendingur vel geta tekið undir það að íslensk náttúra væri falleg og íslenskur matur góður. En sú umræða ætti það til að fara út í það sem kalla mætti þjóðrembing sem væri varhugaverður.

Slíkur málflutningur væri ekki síst varhugaverður vegna þess að stundum væri hann einfaldlega ekki réttur. Eins og til að mynda boðskapur um að Íslendingar væru á einhvern hátt einstakir í veröldinni. Þetta hefði til að mynda heyrst fyrir bankahrunið. Síðan hefði allt hrunið. Það sem skort hefði í aðdraganda þess hafi meðal annars verið varfærni, yfirvegun og skynsemi. Fallega náttúru væri að finna víða um heim sem og góðan mat.

Guðmundur lagði áherslu á mikilvægi þess að Íslendingar tækju þátt í að leysa mál í samstarfi við aðrar þjóðir. Þjóðin þyrfti á samstarfi við aðrar þjóðir að halda í þeim efnum. Björt framtíð legði áherslu á að það gerðu Íslendingar í samstarfi við Evrópuþjóðir. Mikilvægt væri að hér á landi væri fjárfest í fjölbreyttu atvinnulífi sem gerði ekki síst ungu fólki kleift að búa hér á landi og fá vinnu sem hæfði þeim og menntun þeirra.

Í lok ræðunnar nefndi Guðmundur að komið hefði verið upp sérstökum öskurklefa á skrifstofu Bjartrar framtíðar sem væri algerlega hljóðeinangraður. Bauð hann þingmönnum að nýta sér klefann alls endurgjaldslaust og fá þar útrás eða orða hugsanir sínar upphátt sem væri til að mynda skynsamlegt áður en farið væri í fjölmiðlaviðtöl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert