„Það fylgdu ákveðnir fyrirvarar, til að koma til móts við áhyggjur þingflokksins,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld og vísaði til þess að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði samþykkt fjárlagafrumvarpið og þar með hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts.
Með því að hækka neðra þrep virðisaukaskatts hækkar meðal annars verð á matvörum. Það hefur mælst illa fyrir hjá þingmönnum Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð sagði hins vegar að komið hefðu til sögunnar tvö „grundvallar prinsipp“ - eða fyrirvarar - og báðir stjórnarflokkarnir muni standa vörð um þau. Í þeim felist að breytingarnar leiði til aukinna ráðstöfunartekna hjá öllum hópum og að breytingarnar leiði þegar upp er staðið til lækkunar verðlags og þannig þeirra lána sem tengd eru neysluvísitölu.
Sigmundur Davíð sagði að þetta væri grundvallarbreyting á hugsun miðað við þá sem bjó að baki skattahækkunum á síðasta kjörtímabili. Þær skattahækkanir hafi leitt til hækkandi lána.
Þá kom fram hjá honum að í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu verði því unnið að aðgerðum sem eigi að koma til móts við alla. „Þetta var samþykkt í þingflokknum rétt eins og í ríkisstjórn vegna þess að það bættust við þessir fyrirvarar, að menn myndu tryggja það að allir hópar, sérstaklega þeir með lægri tekjur, myndu auka ráðstöfunartekjur sínar.“ Því komi til greina að gera allar þær breytingar sem til þarf á fjárlagafrumvarpinu, til að ná þessum „grundvallar prinsippum“. „Við hljótum að vilja hækka ráðstöfunartekjur fólks,“ sagði Sigmundur.